Föstudagsfréttir

Sjómanndagssigling og Hrísey
Sjómanndagssigling og Hrísey

Föstudagsfréttir koma hér að venju.

Við vorum heppin með veður á sjómannadagshátíðinni í ár. Hríseyingar tóku forskot á sæluna og héldu sjómannadagshátíð sína á laugardegi og var vel mætt. Siglingin var skemmtileg og mættu gestir frá björgunarsveitinni Súlum með báta og sjóketti. Sýndi Narfi úr Björgunarsveit Hríseyjar, ásamt áhöfn Hríseyjarferjunnar Sævars, hvernig bjarga mætti manni ú sjó, við mikla hrifningu yngri kynslóðarinnar. Að venju var boðið upp á djús, kók og prins í ferjunni og minni bátarnir sem voru með í hópsiglingu voru með eitthvað góðgæti á borðum líka. Það var gaman að sjá hversu margir bátar tóku þátt í siglingunni og við efumst ekki um að þeim fari fremur fjölgandi en fækkandi í framtíðinni.

Eftir siglingu var haldið til sjómannadagsmessu og svo grilluðu ferjumenn handa svöngum eyjaskeggjum og gestum og fá þeir þakkir fyrir þennan frábæra hádegismat. Björgunarsveitin og slökkviliðið lofuðu krökkunum að prófa börur, taka smá hring á sexhjóli, skoða inn í bílana og kveikja bláu ljósin. Farið var í reipitog og pokahlaup á svæðinu en síðan var haldið niður að smábátabryggju þar sem dagskráin hélt áfram. Það er nýlega búið að skipta út björgunarbátum á ferjunni og var einn af gömlu tekinn og sýnt hvernig björgunarbátar eru blásnir upp og fengu krakkarnir að skoða. Hann kom svo að góðum notum í flekahlaupinu þar sem hlupið var á karalokum frá flotbryggjunni út í bátinn. Keppt var í kararóðri og svo þegar dagskrá var að ljúka og krakkarnir farnir að hoppa í sjóinn í leik, þá flaug Landhelgisgæslan yfir svæðið og heilsaði upp á okkur. Glæsilegt kaffihlaðborð beið svo í Íþróttahúsinu þar sem rúmlega 100 manns mættu í kaffi Björgunarsveitarinnar.

Vill Björgunarsveitin koma kærum þökkum til allra þeirra sem lögðu til bakstur og vinnu við hlaðborðið, sem og skipulag dagsins. 

Sæfari kom til Hríseyjar í gær, fimmtudag, og var gleðilegt að sjá hann aftur. Þó að vissulega hafi fjarvera hann snert nágranna okkar í Grímsey mun meira og af meiri alvöru, þá þjónustar Sæfari einnig Hrísey. Með honum fara þungaflutningar sem hvorki komast fyrir né eiga heima í farþegarferjunni Sævari. Nú er því hægt að flygja húsbílana í land, eða út í eyju, fara á fullt í að steypa og tæma á gámasvæðinu.

Hríseyjarbúðin hefur sett á sumaropnun sem og uppfært matseðilinn sinn. Við mælum með að fylgjast með þeim á samfélagsmiðlum, facebook og instagram.

Verbúðin 66 hefur verið með heimilismat í hádeginu sem vakið hefur mikla lukku. Vertinn skrapp í frí og sneri heim með glænýja heimasíðu sem er komin í loftið og gaman er að skoða.

Mikið líf hefur verið í Hrísey og greinilegt að eyjan er vinsæll áningastaður, hvort sem er til dagsferða eða lengri dvalar. Skemmtiferðaskip sjást á siglingu um fjörðin og eins og hefur verið síðustu ár stoppa sum hérna fyrir utan og fólk ferjað út í eyju til okkar. 

Búið er að opna salernisskúrinn og við biðjum fólk um að ganga vel um. Eitthvað hefur verið um slæma umgengni undanfarið og þurfum við að bæta okkur þar. Við efumst ekki um að það gerist.

Það hefur ekki farið framhjá neinum að verkföll eru í gangi. Finnum við einna helst fyrir því að sundlaugin sé lokuð hér í Hrísey en einnig hefur ýmis þjónusta hjá Akureyrarbæ skerst. Við þurfum að hjálpast að við að upplýsa ferðamenn og gesti svo enginn fari í fýluferð í Íþróttamiðstöðina með sundpokan sinn.

Búast má við fjölmenni í Hrísey um helgina og við hvetjum því öll þau sem hafa hugsað sér að fara út að borða eða panta Hríseyjarpizzu í búðinni í dag, að vera snemma til þess að bóka og panta. 

Þá hættum við okkur á veður-slóðir. Veðrið verður heldur kaldara en hefur verið. Hiti á bilinu 8-12 stig á laugardegi en hlýnar svo aðeins á sunnudag. Búast má við smá bleytu á morgun en þó ekki nægilega mikilli til þess að við sleppum við að vökva sumarblómin. Sólin verður sýnileg, mismikið. 

Við látum fylgja hér myndir frá sjómannadagshátíðinni en skemmtilegt myndband frá deginum má finna á bæði facebook og instagramsíðu Hríseyjar. Þið megið svo endilega vera duglega að "tagga" miðlana okkar í póstum og sögum á ykkar miðlum!