Sundlaugin í Hrísey
Árið 1943 var fyrst rætt um að reisa bráðabirgðasundlaug í Hrísey. Þótti það mjög nauðsynlegt því senda þurfti börn á námskeið til lands og var árangurinn af því ekki mjög góður.
Lítið gerðist í þessum málum fyrr en árið 1948. Þá var bréf sent til íþróttafulltrúa ríkisins og hann beðinn um upplýsingar. Ekki leið á löngu þar til svar barst um hvernig haga skyldi framkvæmdum. Þá kom babb í bátinn. Íþróttanefnd ríkisins hafnaði að úthluta fé til sundlaugarbyggingarinnar. En stuðningur fólks í þorpinu við málefnið var mikill og árið 1950 var veitt land milli Ásgarðs og Öldu undir sundlaug. Hafist var handa og byrjað að grafa, og gáfu menn vinnu sína. En árið 1951 þegar búið var að steypa útveggi kjallarahæðar og undirstöður laugarþróarinnar stöðvaðist vinnan vegna peningaskorts, og fyrirsjáanlegt var að næsti áfangi yrði mjög kostnaðarsamur. Sjö árum síðar var sundlaugarnefnd skipuð á ný og henni falið að hefja framkvæmdir við byggingu. Kvenfélag Hríseyjar skoraði á hreppsnefnd að gera eitthvað í málinu og veitti það 50.000 kr. til byggingarinnar og einnig var til í laugarsjóði 60.000 kr. Ákveðið var þá að steypa laugarþróna ásamt pöllum í kring. Ekki hafa framkvæmdir gengið hratt fyrir sig, en um 1964-1965, rúmlega 20 árum eftir að fyrst var rætt um byggingu, var komin sundlaug í Hrísey.
Þessi grein er tekin upp úr ritgerð sem Elín Björg Ingólfsdóttir gerði í kring um 1984 í menntaskóla. Ritgerðin birtist í tímaritinu Súlum og þótti mjög merkileg vegna þess að lítið var til um ritaðar heimildir um Hrísey. Elín er barnabarn Elínbjargar Þorsteinsdóttur. Heimildir eru bæði munnlegar og skriflegar. Heimildaskrá fylgir ritgerðinni og munum við reyna að setja sem mest af þessu efni inn á síðuna.