Vel heppnaður dagur

Dagurinn í gær var hreint ótrúlegur, veðrið stórkostlegt og þátttakan framar björtustu vonum. Um fimmtíu manns nýttu sér að fara frítt í sund, börnin nutu sín í leikjum undir stjórn Ingibjargar kennara og vöfflurnar hreinlega flugu út. Síðan var uppboð og ýmislegt boðið upp s.s. tertur, málverk og fiskur. Eftir uppboðið var boðið upp á skemmtidagskrá þar sem fram komu Hrannar Björn í skemmtilegum gervum, Aðalsteinn Bergdal, Gréta Kristín, Unnar og Olli (BS), síðan spiluðu Guðjón og Birgir Sigurjóns undir borðum á meðan grillað var og brugðu þau feðgin Gréta Kristín og Ómar sér upp á svið og tóku lagið með þeim snillingum. Boðið var upp á grillmat og bjór gegn vægu gjaldi. Keyptur var matur fyrir hundrað manns og ekki var arða eftir þegar biðröðin kláraðist.  Eftir matinn héldu þeir félagar Kiddi Árna og Hrannar áfram með uppboðið og var meðal annars boðin upp gamall bíll og enn fleiri málverk einnig gosið sem ekki kláraðist á matnum.   Um kvöldið steig síðan Andrea Kristinsdóttir á svið og tók lagið og síðan spiluðu stuðboltarnir í Stormsveitinni fram á rauða nótt.Það er ánægjulegt að eftir svona dag finnur maður hvað það er gott að búa í Hrísey, við stöndum saman sem einn þegar eitthvað bjátar á og nálægðin sem margir  ekki þekkja til finnst óþægileg, verður til þess að maður fyllist öryggi. Það er ástæða til að þakka öllum þeim sem tóku þátt í þessum degi með okkur alveg hjartanlega fyrir að taka þessu svona vel, án ykkar hefði þetta ekki verið framkvæmanlegt. Einnig eru bestu þakkir til Kristins Árnasonar kynnis, Agnesar í  Bruggsmiðjunni, Eyjabúðarinnar, Brekku, Ektafisks, Vífilfells og þeim fyrirtækjum, félagasamtökum og einstaklingum sem gerðu daginn af því sem hann varð. Síðustu tölur eru að rétt um milljón safnaðist og verða vonandi komnar endanlegar tölur inn á síðuna á morgun  en eftir er að gera upp smávegis útlagðan kostnað.  Von er á fullt af myndum inn á síðuna líka.