Sjúkrabíll í Hrísey
04.11.2014
Í dag kom sjúkrabíll til Hríseyjar
með Sæfara og var það Anton Steinarsson sem sótti bílinn til Akureyrar. En
umræðan byrjaði fyrir um ári síðan þegar forstöðumaður Heilsugæslunnar á Dalvík
fór að ræða við Hverfisráðið um að fá hingað bíl. Björgunarsveit Hríseyjar
kaupir bílinn af Rauða krossinum en Akureyrarbær styrkir sveitina um
kaupverðið. Bíllinn er í góðu standi en hann kemur frá Akureyri og var í notkun
þar. Heilsugæslan á Dalvík mun síðan leggja til búnað í bílinn. Samskip styrkti flutninginn yfir sundið. Gaman er að segja
frá því að um þessar mundir er 14 manns frá Hrísey á vettvangshjálpar námskeiði
hjá Sjúkraflutningaskólanum.
Fyrirhugað er að bíllinn verði til sýnis í Björgunarsveitarhúsinu þegar hann er fullbúinn og verður það nánar auglýst síðar.