Ný störf í Hrísey

Í dag átti sér stað ánægjulegur atburður í Hrísey þegar fjórir starfsmenn hófu störf hjá Tryggingamiðlun Íslands ehf. Störfin felast í því að hringja út og bjóða upp á heimsókn ráðgjafa varðandi tryggingar.  Tryggingamiðlun Íslands ehf. er ein elsta starfandi vátryggingamiðlunin hérlendis en miðlunin var stofnsett í júní árið 1997. Fyrirtækið er staðsett í Kópavogi en með ráðningu starfsmannanna í Hrísey sannast það að lítið mál er að vinna hvar sem er á landinu í dag við svona störf. 

Hægt er að ráða fleiri til starfa og geta áhugasamir haft samband við Ingimar Ragnarsson í síma 867-5655 en hann hefur yfirumsjón með verkefninu í Hrísey. Vinnutíminn er mjög sveigjanlegur en úthringiverið verður opið frá kl 10.00 – 22.00.  Starfstöðin er í Hlein og þar er Stefna Hugbúnaðarhús einnig til húsa. Það má því segja  að atvinnulíf í eyjunni verði fjölbreyttara en áður hefur verið.

Þessi störf eru beint framhald af vinnu áhugahóps um framtíð Hríseyjar en hópurinn hefur starfað frá ágúst í fyrra og stóð fyrir málþingi um framtíð Hríseyjar og síðan íbúafundi í vetur þar sem kynntar voru niðurstöður málþings.