Jólastund í húsi Hákarla Jörundar
13.12.2011
Laugardaginn 3. desember komu eyjaskeggjar saman í húsi Hákarla Jörundar. Þar lásu nemendur Hríseyjarskóla frumsamin ljóð og sögur, Aðalsteinn Bergdal fræddi fólk um Grýlu og Leppalúða og las ljóð um þetta sérstaka fólk, séra Hulda Hrönn M. Helgadóttir stjórnaði skemmtilegum samkvæmisleik, Ragnar Víkingsson þandi nikkuna og tóku allir undir og sungu saman nokkur jólalög. Rúmlega fimmtíu manns mættu á þessa notalegu stund.
Ekki var allt búið því veitingahúsið Brekka var með árlegt kaffihlaðborð og er óhætt að segja að allir hafi farið þangað á eftir og gætt sér á gómsætum tertum.
Að lokum var kveikt á leiðalýsingunni í kirkjugarðinum og að venju var hugvekja og söngur í garðinum.
Góður dagur í Hrísey og verða þeir vonandi fleiri í aðdraganda jóla.