Jákvæðar fréttir af Hríseyingum um víða veröld.

Það er alveg fullt að gerast hjá okkur í Hrísey þessa dagana. Í dag kl. 18.00 var foreldrakaffi í skólanum þar sem nemendur kynntu ásamt Þórunni kennaranema sem hefur verið í æfingakennslu hér í skólanum síðustu fimm vikur verkefni sem þau hafa verið að vinna. Verkefnið unnu þau út frá heimabyggðinni Hrísey. Afraksturinn var veggteppi sem hefur að geyma 20 litlar myndir af því sem nemendur töldu vera táknrænt fyri Hrísey. Nemenfur höfðu frjálsar hugmyndir um útfærslu á myndunum þau völdu ýmist aðferðir sem þau kunnu eða langaði að prófa s.s. þæfingu, krosssaum, prjón og hekl, klippimyndir og ýmislegt fleira.  

9. og 10. bekkur fór til Akureyrar í dag og tók við verðlaunum frá Landsbankanum, en þau unnu Raunveruleikinn sem skólar landsins hafa spilað í vetur á netinu. Þessi hermileikur felst í því að lifa lífinu frá 19 ára aldri og upp að fimmtugu. Krakkarnir þurftu að kaupa sér íbúðir, stofna fjölskyldur, læra, vinna, hugsa um fjölskylduna og bara allt sem þessu fylgir.


Elín Árnadóttir er að taka við starfi forstjóra Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar ohf.
Elín er fædd árið 1971 og er að sjálfsögðu dóttir Árna Krist og Eyglóar Ingimars. Elín var ráðin fjármálastjóri Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar í júní 2001 og hefur auk þess verið staðgengill forstjóra frá 2006.  Elín er gift Árna Ólafssyni framkvæmdastjóra og eiga þau eitt barn hann Ólaf Þorstein.


Skemmtilegar fréttir af vef Menntaskólans á Akureyri
Morfís lið skólans keppti við Fjölbrautarskóla Suðurnesja og fóru leikar þannig að lið MA vann. Í liðinu eru Gísli Björgvin Gíslason, Gréta Kristín Ómarsdóttir, Steinunn Guðný Ágústsdóttir og Valur Sigurðarson. Gréta var auk þess valin ræðumaður kvöldsins.

Meira frá MA, en lið MA vann spunakeppni framhaldsskólanna, Leiktu betur í Austurbæ í Reykjavík síðastliðinn laugardag.  Að sögn Vilhjálms Bergmanns Bragasonar, formanns skólafélagsins Hugins, hlýtur lið skólans að sigurlaunum ferð til Vínarborgar í maí í vor, en þar fer fram spunakeppni liða úr evrópskum skólum. Liðið skipa Gísli Björgvin Gíslason, Gréta Kristín Ómarsdóttir og Valur Sigurðarson, en auk þeirra var í liðinu Anna Hafþórsdóttir.
En Gréta er dóttir Ómars Hlyns og Lindu Maríu Ásgeirs.