Íþróttaskóli

 Jákvæðar fréttir frá Ingibjörgu kennara.  Í haust kom upp sú hugmynd að hafa íþróttaskóla fyrir börn á aldrinum 1-5 ára í nýja íþróttahúsinu. Til að kynda undir foreldrum var haldinn opinn dagur og öllum boðið að koma og sjá hvað við ættum mikið að fínu dóti. 


Ég fann síðan til blöð og bækur um hreyfiþroska og íþróttir barna og byrjaði að skipuleggja og það er sannarlega margt skemmtilegt sem hægt er að gera. Ég hef aldrei gert neitt þessu líkt áður en hreyfing barna var partur af náminu mínu þótt ég hafi ekkert nýtt mér það hingað til.  Ég vil leggja upp úr aga og að börnin þjálfast í að fylgja fyrirmælum, tímarnir hafa upphaf og endi því þegar allir vita til hvers er ætlast líður börnunum betur. Við höfum byrjað á einföldum leikjum til að hita upp þátttakendur. Uppáhaldsleikurinn okkar er stórfiskaleikur og bangsi sefur. Þrautabrautin er alltaf vinsæl en þá spreyta börnin sig á ýmsum þrautum sem styrkja t.d. jafnvægi, liðleika, krafta og þor.  Krakkarnir hafa mikið úthald og gætu verið miklu lengur að en þau fá tækifæri til. Við höfum alltaf sungið saman í lok tímans og fáum okkur svo "íþróttanammi" hressingu. Stundum hef ég hvatt foreldra til að taka þátt í leikjunum með okkur við misgóðar undirtektir en oft hef ég þurft á þeirra hjálp að halda til að fylgja eftir erfiðari þrautum. Haustönnin heppnaðist mjög vel og vona ég að vorið verði eins skemmtilegt. Þið sem fáið börn í heimsókn á miðvikudögum eruð velkomin með þau í íþróttaskólann bara að mæta fyrir klukkan 16:20 í íþróttagallanum. 

Myndir hér