Húsnæðismál í Hrísey í fréttum
Það hefur ekki farið fram hjá neinum að Hrísey hefur verið í fréttum síðustu daga.
Verkefnissýra Áfram Hrísey, Ásrún Ýr, var í hádegsfréttum hjá Rás1 sunnudaginn 13.nóvember að ræða verkefnið Áfram Hrísey.
Rúv fylgdi þeirri frétt eftir og kom Ásrún í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins þann sama dag og fór yfir húsnæðismál í Hrísey, og þau áhrif sem skortur af íbúðarhúsnæði gefa haft í för með sér fyrir byggðina og samfélagið í eyjunni. Fylgdi Ásrún fréttinni eftir með póst á sinni persónulegu Facebook síðu þar sem mikið var klippt út í viðtalinu sem tekið var við hana fyrir fréttina. Við birtum hér tilvitnun í póst Ásrúnar, ásamt því að tenglar á fréttir ýmissa miðla síðustu daga eru hér neðst í textanum.
,,Það var ýmislegt sem ekki var notað í fréttinni af því sem ég sagði (skiljanlega, við spjölluðum í rúman klukkutíma). Ég stikla hér á nokkrum af þeim hlutum sem náðu ekki á Rúv.
Lóðir. Á skipulagi í Hrísey er frístundabyggð sunnan og austan megin á eyjunni og ágætis land þar undir. Þar vantar að klára að vinna lóðirnar, leggja vegi, rafmagn, lagnir og slíkt. Þær lóðir gætu verið minni en þær sem eru nú til staðar í frístundabyggðinni og þá væri auðveldara og ódýrara að byggja sér minni sumarhús og njóta þess að vera í Hrísey í fríum.
Hér í þorpinu mætti fjölga lóðum og hafa þær fjölbreyttari. Eins og er eru hér einbýlishúsalóðir og þar af að minnsta kosti ein með kvöðum á tveggja hæða einbýlishúsi. Hvergi er gert ráð fyrir lóðum undir t.d fjagra íbúða einingum eða raðhúsum. Það er í vinnslu skipulag í Miðbraut en það mætti fara í allsherjar skipulag innan byggðarinnar hér í Hrísey.
Í Hrísey vantar leiguhúsnæði. Það er stór ákvörðun að flytja á eyju og ekki hver sem er tilbúinn til þess að fjárfesta í húsi eða lóð og byggja sér einbýlishús á stað sem viðkomandi hefur aldrei búið á. Það er trú okkar og von að Akureyrarbær verði okkur innan handa að opna augun á möguleikum leigufélaga eða einstaklinga fyrir byggingu nokkurra leiguíbúða hér í eyjunni. Það er nokkuð víst að engin íbúð muni standa tóm til lengri tíma.
Þau sem eiga hús hér í þorpinu sem orlofshús, taka flest fullan þátt í samfélaginu hér. Konur eru í kvenfélaginu, mörg halda viðburð í eyjunni og ekki síst, passa upp á fallegu húsin sín sem er stór ástæða þess að hér í þorpinu er eins falleg og snyrtilegt og raun er. Það er ómetanlegt að eiga góða granna þó þeir séu ekki alltaf "heima".
Við sem búum hér allt árið viljum nú samt, langflest, að frístundabyggðin haldi áfam að þróast þar sem hún á heima og að þorpið okkar fái að lifa og dafna með heilsárs íbúum. Að hér búi það margir allt árið um kring að við náum að halda búðinni og íþróttamiðstöðinni opinni, ferjuferðum fækki ekki, sjúkraflutningar (sem eru í höndum sjálfboðaliða þeirra sem hér búa) séu öruggar og við höldum leik og grunnskóla starfandi.
Eins og staðan er í dag eru þrjár fjölskyldur í virkri húsnæðisleit og hafa tvær aðrar haft samband og spurt hvernig staðan er með atvinnu og húsnæði. Það er mjög jákvætt fyrir Hrísey að áhugi á búsetu hér er svo mikill og því óneitanlega erfitt og sárt að vera með hendur bundnar vegna húsnæðismála. Þetta er okkar stærsta verkefni eins og er og við tökumst óhrædd á við það. Hér ríkir bjartsýni til framtíðar.
Áfram Hrísey!"
Við minnum enn og aftur á að ef þú ert með húsnæði sem gæti leyst þennan vanda þó ekki væri nema tímabundið, hafið samband í síma 866-7786 eða sendið póst á afram@hrisey.is
Sjónvarpsfréttir Rúv 13.nóvember