Hríseyjarhátíð 2019
Hátíðin fór fram helgina 12. og 13. júlí sl. Rúmlega 1.250 manns komu með ferjunni yfir helgina og er það töluvert meira en undanfarin ár.
Viljum við byrja á að þakka þeim sem styrktu hátíðina hjartanlega fyrir sín framlög það er alveg ljóst að ekki væri hægt að halda hátíðina án ykkar. Aðalstyrktaraðilar eru Akureyrarstofa og Andey ehf en síðan eru það Hrísiðn, Narfi Björgvinsson, Bjórböðin, Guðmar ehf, Hlöllabátar á Akureyri, Verbúðin 66, Rjúpan, Wave Gusethouse, Hríseyjarbúðin, Landnámsegg ehf, Menja ehf og Rif ehf.
Hátíðin hófst á föstudeginum með Garðakaffi frá kl. 15 - 18 og er þessi skemmtilegi viðburður búinn að festa sig heldur betur í sessi og alltaf að aukast aðsóknin, boðið er upp á alls konar kruðerí og jafnvel lifandi tónlist. Gestir í Garðakaffi voru frá 100 og alveg upp í 160 á þessum 5 stöðum sem voru með kaffið. Bestu þakkir kæra kaffifólk.
Óvissuferð barna var á sínum stað og voru 55 börn sem tóku þátt í henni, Hrund Teitsdóttir sá um hana ásamt nokkrum duglegum aðstoðarmönnum. Á föstudagskvöldið var svo óvissuferð fullorðinna og rúmlega 100 manns tóku þátt í henni, að þessu sinni sá Kristján Blær umboðsmaður Orum um ferðina.
Á laugardeginum var dagskrá á sviðinu frá kl. 13.00 fram komu Stúlli og Danni, Spiceman og Pétur Guð og hin árlega kaffisala kvenfélagsins var á sínum stað og alltaf jafn flott. Leikir og sprell í Íþróttamiðstöðinni þangað mættu um 25 krakkar og fóru í leiki undir stjórn Mariu Reyndal, Hrafnhildar og Matthíasar. Ratleikur í umsjón Sjössa á Selaklöpp, Hríseyjamót í pönnubolta í umsjón Ingólfs, Fjöruferð Skralla trúðs en Skralli fór í sína hinstu för og voru um 60 börn sem fylgdu honum. Við viljum koma á framfæri kærum þökkum til Skralla og takk fyrir samfylgdina í öll þessi ár. Hópakstur dráttarvéla var á sínum stað og kvöldvaka með þeim Bjartmari Guðlaugssyni og Anton Lína og síðan endaði hátíðin á brekkusöng sem þeir Stúlli og Danni stjórnuðu og varðeldi.
Fyrir hönd stjórnar Ferðamálafélags Hríseyjar viljum við þakka öllum þeim sem aðstoða og koma að framkvæmd hátíðarinnar kærlega fyrir aðstoðina. Þetta er ekki alveg hrist fram úr erminni og margar hendur koma að þessu hvort sem er við að hlaða brennu, gera dagskrána, sjá um hljóð, safna styrkjum, sjá um uppgjör og bókhald, búa til auglýsingar, svara fyrirspurnum, útvega skemmtikrafta og margt margt fleira.
Ingimar Ragnarsson og Linda María Ásgeirsdóttir