Hoppandi kýr í Hrísey

Í dag fengu kýrnar í Hrísey að fara út í fyrsta sinn á árinu eftir langan vetur. Stukku þær allar út með miklum rassaköstum og litlu kálfarnir hoppuðu í fótspor þeirra en bolinn Hringur var ekki á því að fara út og þurfti að beita brögðum til þess að fá hann af stað ekki fór þó betur en svo að hann komst undan og þurfti að hafa þó nokkuð fyrir því að ná honum í girðinguna. Í dag eru 15 kýr sem allar hafa borið í vor þannig að kálfarnir eru 15 talsins og einnig eru þrír síðan í fyrra.

Elsta kýrin er fædd 1993 og hefur hún borið 15 sinnum og og segja þeir bændur að alltaf komi mjög fallegir kálfar undan henni og þess vegna mun hún vera látin bera á meðan hún hefur heilsu til. Í fjósinu er eitt naut sem er nýkomið í eyjuna tveggja ára gamalt og eru nautin einungis nýtt í einn gang.Unnið hefur verið að því að stækka stofninn og eru lífdýr seld um allt land. Mikil ánægja er meðal eyjaskeggjan á þessum búskap því hér var þetta kyn ræktað upp og gott til þess að vita að hér sé stundaður búskapur einnig sjá þeir ,,frístundabændur" eins og þeir vilja kalla sig um að hirða túnin hér. Þess má geta að bændurnir stunda allir aðra vinnu og því má kalla þetta hliðarbúskap eða áhugabúskap.

Fyrirtækið Holdi ehf hefur verið starfrækt í Hrísey síðan 2006 í kring um Galloway nautgripi. Ræktun Galloway-stofnsins hér á landi hófst með stofnun Einangrunarstöðvarinnar í Hrísey upp úr 1970. Íslenskar kýr voru sæddar með innfluttu sæði úr Galloway-nautum.

Hér má sjá myndir