Góðir gestir í Hrísey

Laugardaginn 24. janúar tók Markaðsráðið á móti þrjátíu manna hóp, í mat í Hákarlasafninu. Þetta var sölufólk Icelandair í Frankfurt, París og Amsterdam og kom hingað á vegum Akureyrarstofu.


Hópurinn kom til Akureyrar á föstudeginum og var stöðug dagskrá hjá þeim fram til kl 18.00 á laugardeginum en þá flugu þau aftur til Reykjavíkur. Heimsóttir voru margir staðir á Akureyri og farið í Freyjulund og Kalda á leiðinni til Hríseyjar. Hópurinn var sóttur á Árskógssand rétt fyrir hádegið og siglt til Hríseyjar á Guðrúnu bát Norðurskeljar. Markaðsráðið bauð til matar og á boðstólnum var kræklingasúpa, grænmetissúpa, kræklingur, heimabakað brauð, harðfiskur og berjasaft,  reynt var að hafa sem mest af hráefninu héðan úr eynni. Byrjað var á hákarli og brennivíni þegar fólkið kom í hús, við misjafnar undirtektir. Haldin var stutt kynning á Hrísey og því sem við höfum upp á að bjóða og svo voru sýndar yfir 200 myndir frá Hrísey. Mikið var um spurningar og var mikil áhugi hjá fólki á eyjunni okkar. Í forsvari fyrir hópinn var Arthúr Björgvin Bollason og fengum við kveðju frá honum eftir ferðina sem hljóðaði á þennan hátt: Án þess að lasta einn eða neinn, þá var ferðin út í Hrísey án efa hápunktur heimsóknarinnar.  
Farið var með hópinn í traktorsferð og svo fóru þau siglandi á Guðrúnu sæl og glöð aftur upp á fasta landið.
Það sem gerist næst er að þetta fólk fer heim og selur það sem það upplifði hér. Stefnt er að því að bjóða hingað hópi blaðamanna frá þessum löndum til að fylgja þessu eftir. Þess ber að geta að þessi heimsókn er bara eins og stór auglýsing fyrir okkur. Það skyldi þó aldrei vera að öll sú vinna sem Markaðsráðið hefur verið að vinna undanfarin þrjú ár sé farin að skila sér.

Nokkrar myndir hér