Föstudagsfréttir
Gleðilega hátíð!
Hrísey hefur verið sveipuð jólabjarma þrátt fyrir snjó og frost. Hlýjan sem jólaljósin og bros nágranna veita vinnur hratt á kuldanum.
Fréttir af rekstri Hríseyjarferjunnar eru þær helstar að eins og er mun Andey sjá um Sævar út mars 2023. Verða því engar breytingar að svo stöddu og við höldum okkar þjónustu eins og hefur verið þetta árið.
Skötuilminn mátti finna um alla eyju á Þorláksmessu og nokkuð víst að pakksaddir Hríseyingar og gestir hafi farið sæl að sofa fyrir aðfangadag.
Narfi Björgvinsson vaknaði snemma á jóladag, fór í góða göngu um eyjuna og viðraði snjóblásaran sinn. Þannig var flestum gert auðvelt að ganga til kirkju á jóladag þar sem séra Oddur Bjarni var með hátíðarmessu.
Börn má finna að leik um alla eyju og vissara að fara varlega sé maður akandi því brekkurnar eru ansi freisandi fyrir snjóþotur og sleða í barnaleik. Gönguskíðafæri hefur verið gott og spor má finna upp á ey sem hægt er að nýta sér.
Jólaball Ungmennafélagsins Narfa var haldið á annan í jólum þar sem sungið var, gengið í kringum jólatré og fengin heimsókn frá góðum bræðrum, rauðklæddum. Sungu jólasveinarnir með börnum og fullorðnum áður en krakkarnir fengu gott úr poka þeirra. Síðan var boðið upp á vöfflur og áttu eyjaskeggjar og gestir góða stund saman í Íþróttamiðstöðinni.
Í kvöld verður pöb quiz á Verbúðinni og hægt verður að pantar þar pizzur og sleppa þannig við eldamennsku. Mun Ómar Hlyns mæta með gítarinn eftir pub quizið og halda uppi stemningunni.
Björgunarsveitin hefur opnað flugeldasöluna og er opið í dag milli 16:00 og 20:00, og svo á morgun milli 11:00 og 14:00. Við hvetjum fólk til þess að styrkja sveitina, en hún hefur verið að endurnýja tækjabúnað á þessu ári.
Áramótabrennan í ár verður þar sem hátíðarbrennan hefur verið niðri á svæði, og kveikt verður í klukkan 21:00. Hlýr og góður klæðnaður er nauðsynlegur því spáð er miklu frosti um helgina. Pallíetturnar verða bara að vera undir kraftgallanum að sinni.
Árið 2022 hefur verið gott í Hrísey. Ný orlofshús hafa verið í byggingu, tvö börn fæddust á árinu og teljast Hríseyingar ríflega 160 þegar þetta er ritað. Við höldum bjartsýn og kát inn í nýtt ár og hlökkum til að takast á við þau ævintýri sem 2023 býður upp á.
Gleðilegt nýtt ár kæru lesendur, og takk fyrir árið sem er að líða.