Föstudagsfréttir

Það er falleg aðventan í Hrísey og friðsæl.

Snjórinn er mættur og birtir mikið til að fá hann í bland við jólaljósin sem prýða þorpið. Hríseyingar hafa alltaf verið duglegir að skreyta og í ár er engin breyting þar á. 

Vikan leið tilturlega viðburðarlítil enda eru vonandi flestir að njóta en ekki þjóta þessa aðventuna. Hríseyjarbúðin hefur auglýst opnunartíma yfir hátíðarnar og við munum setja hann hér inn á síðuna. Við mælum með að þau sem eru á facebook fylgi Hríseyjarbúðinni þar því þar koma inn allskyns tilboð, viðburðir og upplýsingar sem enginn vill láta framhjá sér fara.

Piparkökuhúsasamkeppni Draums lauk í vikunni og var það lið númer 2, kirkjan, sem bar sigur úr býtum! Tara Naomí Hermannsdóttir, Arnór Breki Guðmundsson og Patrekur Ingólfsson voru snillingarnir bakvið hönnun og smíði kirkjunnar. Við óskum þeim innilega til hamingju! 

Varðskipið Freyja sýndi sig fyrir Hríseyingum á þriðjudaginn þar sem hún dvaldi lengi við eyjuna. 

Áfram Hrísey verkefnið er alltaf gangi og hefur Ásrún verið að vinna í húsnæðismálum. Búið er að greina stöðuna á leiguhúsnæði sem er nú frekar einföld, lítið sem ekkert húsnæði er til staðar. Það sem hægt er að leigja er eingöngu til skamms tíma og litlar íbúðir sem henti síður stærri fjölskyldum. Ásrún átti fund með Pétri Inga Haraldssyni, skipulagsfulltrúa Akureyrarbæjar, þar sem þau fóru yfir stöðu á tilbúnum lóðum, möguleikum á lóðum til fjölbýlishúsabygginga, athafnar og iðnaðarsvæði og frístundalóðum. Í húsnæðisáætlun Akureyrarbæjar fyrir árið 2022 var hvergi minnst á Hrísey eða Grímsey og kom Ásrún þeim skilaboðum áleiðis að slíkt væri ekki ásættanlegt. Við höldum áfram að ýta á að við gleymumst ekki í umræðum og skipulagi til framtíðar, með uppbyggingu og fólksfjölgun í huga. Ásrún hefur sett sig í samband við leigufélagið Bríet ásamt því að ræða við áhugasama aðila um uppbyggingu á fjölbýlishúsnæði í Hrísey.

Það er vika í Þorláksmessu og fyrir þau sem hugnast ekki að sjóða skötu heima hjá sér þá er skötuhlaðborð á Verbúðinni.

Ungmennafélagið Narfi er að venju með jóladagskrá í Hrísey. Jólapósturinn er á sínum stað og tekið verður á móti bréfum og bögglum í afgreiðslu búðarinnar frá deginum í dag til klukkan 16:00 ár Þorláksmessu. Jólasveinarnir munu svo dreifa póstinum eins og siður hefur verið til fjölda ára. Við hvetjum ykkur til þess að senda nágrönnum og vinum jólakort og styrkja ungmennafélagið. Dagatalið góða verður til sölu, en það er myndskreytt með fallegum myndum úr Hrísey og kostar 3000kr. Hægt verður að kaupa það í búðinni en einnig verður gengið í hús og selt. 

Jólatrésskemmtun verður haldin 26.desember í Íþróttamiðstöðinni og hefst klukkan 14:00. Vöfflukaffi að dansi loknum. Tekið er við frjálsum framlögum og allir eru velkomnir!

 

Það verður kalt um helgina og líkur á snjókomu. Svo klæðið ykkur vel í gönguferðunum, sem við mælum með að fara og skoða jólaljósin.

Piparkökukirkjan  Piparkökuhótel  Piparkökuferja  Varðskipið Freyja