Föstudagsfréttir
Gleðilegt sumar kæru lesendur!
Síðustu dagar vetrar voru eins og góðir sumardagar hér í eyjunni fögru. Sólin skein, hafgolan skrapp í frí og snjórinn vökvaði jörð, götur og einstaka hús þegar hann fór að bráðna. Hjólin hafa verið dregið fram og það er gott að minna öll á að fara vel yfir þau eftir vetrargeymsluna. Athuga dekk, bremsur, ljós og bjöllur áður en þið hjólið út í sumarið.
Það hefur fjölgað í fuglakórnum og það er dásamlegt að heyra fuglasönginn þegar maður vaknar á morgnanna og fer út í lífið. Tjaldurinn, horssagaukurinn, lóan og allir hinir eru að mæta í Hrísey að gera sig tilbúin fyrir varptímann. Það er ágætt að muna að þetta er viðkvæmur tími fyrir fuglana svo við skulum virða að lausaganga hunda og katta er bönnuð og halda okkur sem mest við göngustígana á heilsubótargöngunni.
Sumardagurinn fyrsti var núna í gær og er safnadagur Eyjafjarðar haldinn hátíðlegur árlega þar sem söfnin opna dyr sínar og bjóða inn. Hús Hákarla-Jörundar var opið og öllum og voru margir sem nýttu sér það góða boð. Krakkarnir voru með Sumarfjör í íþróttahúsinu þar sem boðið var upp á fjölskyldu-quiz og leiki í salnum og ylvolgar pizzur og gotterí í sjoppu frammi. Var vel mætt á þann viðburð líka og þakka krakkarnir öllum þeim sem mættu og styrktu þau kærlega fyrir!
Það er enn snjór í eyjunni, enda fengum við alveg gott magn af honum svona seint að vetri. Þannig enn eru börn að leik í snjónum og renna sér, moka og hafa gaman. Það er gaman að fylgjast með krökkum hjóla léttklædd að næsta snjó-haug og leika sér. Sumar og vetur blandast þar skemmtilega saman í börnunum. Við biðjum akandi vegfarendur um að hafa það í huga að með hækkandi sól og hlýnandi veðri verður meira líf á götunum. Við höfum engar "alvöru" gangstéttir hér í Hrísey svo öll þurfum við að fara varlega í umferðinni, taka tillit og vanda okkur.
Ferðamenn sjást oftar á göngu um þorpið og við höldum áfram að taka vel á móti þeim með því bjóða góðan daginn og leiðbeina sé óskað eftir aðstoð. Hrísey hefur alltaf verið gott heima að sækja og við viljum halda því þannig.
Fyrsta helgi sumarsins er að renna upp og passar upp á að hafa hita réttu megin við frostmarkið. Það er ekki svo gott að hún fari í tveggja stafa tölu en á laugardaginn er spá um 3 stiga hita, möguleika á ofankomu og léttri norðangolu. Sunnudagur rennur svo upp örlítið hlýrri eða hiti um 6 gráður, skýjað og suðaustan átt. Það viðrðar því vel til snjóbræðslu og langra göngutúra þar sem hægt er að fylgjast með öllu lífinu sem er að kvikna í Hrísey.