Föstudagsfréttir

Hjölli hefur haft nóg að gera við snjómokstur síðustu daga!
Hjölli hefur haft nóg að gera við snjómokstur síðustu daga!

Það hefur heldur verið mikið um að vera frá síðustu föstudagsfréttum.

Dymbilvikan hér í Hrísey og páskarnir allir voru hreint út sagt frábærir og við þökkum öllum þeim sem komu að skipulagi viðburða, mættu og tóku þátt, kærlega fyrir þeirra framlag. Samfélagið er eins gott og við ákveðum að það sé og það kemur alltaf svo vel í ljós á tímum sem þessum hversu mögnuð við erum. Þau sem búa í Hrísey allt árið, farfuglarnir okkar og einstaka gestir. Við öll gerum Hrísey að Hrísey og ég veit ekki með ykkur, en mér finnst hún frekar frábær.

Páskabingó var haldið mánudaginn 25.mars og var bæði barna og fullorðinsbingó mjög vel sótt. Stöllurnar Gunna og Steina stóðu bingóvaktina af sinni allkunnu snilld og vinningarnir ruku út. Mæting í fullorðinsbingó var svo góð að setið var frá útidyrum upp í rjáfur! Vel gert við!

Skírdagur rann upp bjartur og fagur og ilmurinn í þorpinu hefði gert Hérastubb bakara stoltan. Tertur, brauð og pönnukökur streymdu að Verbúðinni eftir hádegi þar sem kvenfélag Hríseyjar undirbjó sitt árlega köku-uppboð. Á meðan kvenfélagskonur stilltu upp og skráðu bakkelsið opnaði Kristín Björk Ingólfsdóttir ljósmyndasýningu Í Sæborg. Ljósmyndasýningin bar nafnið ,,Tinnitus, aldrei þögn" og hafði Kristín tekið portret myndir af einstaklingum sem með tinnitus og á meðan gestir skoðuðu myndir og lásu sér til um tinnitus hljómuð þau hljóð sem myndefnin hafa í eyrunum alla daga. Var sýningin virkilega áhugaverð og fróðleg. Við óskum Kristínu hjartanlega til hamingju með magnaða sýningu.

Köku-uppboðið fór fram af fagmennsku og gleði. Allt seldist upp og heiðursmennirnir tveir sem keyptu saman stærstu og dýrustu kökuna buðu uppboðsgestum upp á tertuna að uppboði loknu. Kvenfélagið hefur í rúm 80 ár styrkt nærsamfélagið með ýmsum styrkjum, vinnu og glætt samfélagið með viðburðum sem þessum. Ágóðinn af uppboðinu mun skila sér aftur í samfélagið í gegnum þeirra góðu störf. 

Skírdegi var ekki enn lokið. Pub-quiz var haldið um kvöldið og fylltu fróðir eyjaskeggjar og gestir Verbúðina 66. Eitt er víst að fólk gekk enn fróðara út en þegar þau komu inn. 

Föstudaginn langa var kaffihlaðborð á Verðbúðinni og pizzubakstur í Hríseyjarbúðinni. Allt fór vel fram og fólk fór að undirbúa sig undir versnandi veður sem veðurspáin var farin að hóta. Gestur Leó var öflugur fyrir hönd Björgunarsveitarinnar og UMFN að troða gönguskíðabrautir um eyjuna alla dagana og voru þær sannarlega vel nýttar.

Laugardagsmorgun var búið að snjóa töluvert og snjó kyngdi niður. Það stoppaði þó ekki tæplega 40 börn í páskaeggjaleit niðri á svæði sem Áfram Hrísey verkefnið stóð fyrir. Krakkarnir létu kulda og snjó ekki stoppa sig og óðu snjó upp að mitti til þess að leita í runnum, við dráttarvélar og leiktæki. Það var mikið fjör og gaman að fylgjast með þeim skríða upp úr snjónum kát með páskaegg. Síðar um kvöldið fengu innri stjörnur að brjótast fram í karioki á Verbúðinni! 

Páskadagur rann upp með byl og ófærð. Páskamessu var aflýst og ferjuferðir fellu niður um tíma. Enda ófært í landi og færi innan eyjar ekki með besta móti. Hrísey er ekki minna notaleg þegar stormar og fólk naut páskadagsins innan dyra. 

Annan í páskum var enn ófært um suma vegi og ílengdust þó nokkrir gestir í eyjunni vegna þess. Fréttaritari telur þó að engum hafi þótt neitt sérstaklega erfitt eða leiðinlegt að dvelja aðeins lengur í Hrísey... 

Íþróttamiðstöðin var opin alla páskana og voru þau sem í eyjunni voru stödd mjög duleg að nýta sér það. Yfir 400 gestir sóttu sundlaugina og svo var vel mætt í rækt og íþróttasal! Við höfum frábæra aðstöðu hér og gaman að frétta af því þegar hún er svo vel nýtt. Svo er þetta eins og Hálsaskógi, öll dýrin eru vinir svo þröngir klefar og takmarkað pláss skapar umræður en ekki leiðindi.

Frá þriðjudegi hefur hefðbundin vika verið hér í Hrísey sem og annarsstaðar. Það örlar fyrir "fjölgunarþynku" eftir að eyjan hafi nánast tvöfaldast í íbúafjölda yfir páskana. Allt í einu eru færri á ferð sem eru þó alls ekki fáir. Sundlaugargestir telja í tug en ekki hundrað og röðin í Hríseyjarbúðinni er styttri. Hríseyingar eru nefninlega alveg ótrúlega mörg. Það eru þau sem búa í eyjunni allt árið um kring og svo öll þau sem velja að eyða fríum og hátíðisdögum í eyjunni og taka þá fullan þátt í öllu því sem okkur dettur í hug að gera hér. 

Vorboðinn í Hríseyjarbúðinni kom í stutta heimsókn og tók með sér vin. Kúluísinn mætti en þegar frystirinn ákvað að fara í veikindaleyfi hvarf hann tímabundið aftur. En vinur hans, krapið, er mætt til að vera! Það er komin krapvél í búðina, við mikil fagnaðarlæti!

Það er hálka og mikill snjór. Farið því varlega á gönguferðum ykkar um eyjuna um helgina og hafið símann meðferðis ef eitthvað kemur fyrir. Spáð er allt að 4 gráðu frosti á laugardaginn, vind 4 m/s en lítilli sem engri ofankomu. Sunnudagur verður ögn hlýrri, hiti um frostmark, vindur 11 m/s og ofankoma. 

Snjógalli, gönguskíði og góðaskapið er allt sem þarf inn í helgina!

Hér fylgja nokkrar myndir frá síðustu dögum en fleiri myndir og mynbönd má finna á Instagram