Föstudagsfréttir
Föstudagurinn 22.mars er heldur betur að minna okkur á að við búum jú á Íslandi og veturinn getur verið langur.
Það er veðurviðvörun í gangi þennan föstudaginn og í Hrísey blæs og snjóar í bleytunni. Sum vona að þetta sé hið víðfræga páskahretur og að núna getum við verið róleg því það verði blíða alla páskana. En við vitum nú öll að veðrinu stjórnum við ekki þó við glöð vildum (og oft reynum). Vikan hefur verið sæmilega skrítin með hita, kulda, snjó, rigningu og sól þegar henni sýnist.
Það hefur verið rólegt að mestu hér í eyjunni þessa vikuna eins og undanfarnar. Páskarnir eru rétt handan við hornið og þá lifnar nú heldur betur við hérna hjá okkur. Viðburðardagatalið er lifandi síða sem vert er að fylgjast með því það getur alltaf eitthvað nýtt dottið þar inn með skömmum fyrirvara! Við erum nefninlega svo sniðug að láta okkur detta eitthvað í hug og framkvæma. Hríseyjarskóli er kominn í páskafrí frá deginum í dag og við má búast að þau verði dugleg að nýta sér nýfallinn snjóinn til útiveru og leikja. Svo endilega farið varlega þegar þið beygið fyrir horn eða keyrið langar beinar götur.
Hnúfubakurinn "okkar" var á sínum stað þegar fréttaritari fór að kíkja á hann um miðja vikuna. Það er kannski ekki æskilegt að taka göngutúr alla leið til hans á meðan veðrið lætur svona illa við okkur, en um leið og styttir upp og sóli skín þá er þetta passleg ganga og skemmtileg. Það væri gaman ef einhver lesandi vissi hversu oft hvalrekar hafi komið upp hér í Hrísey og væri til í að deila þeim fróðleik með okkur hinum.
Byrjað er að auglýsa sumarstörf hér í Hrísey hjá Akureyrarbæ, bæði í Íþróttamiðstöð Hríseyjar og svo eftir flokkstjórum í Vinnuskólanum (umsóknin er fyrir allan Akureyrarbæ en hægt er að óska eftir að starfa í Hrísey). Við hvetjum áhugasöm til þess að sækja um, bæði í Íþróttamiðstöðinni og sem flokkstjóri.
Dymbilvika er að renna upp og páskar. Af nægu er að taka eins og viðburðardagatalið sýnir og við hvetjum þau sem í eyjunni verða næstu vikuna til þess að vera dugleg að taka þátt! Það er alltaf skemmtilegast þegar við erum saman.
Páskabingó Slysavarnarfélagsins er á sínum stað á þriðjudaginn. Bæði er barna og fullorðins bingó þannig öll ættu að geta fengið vinning við hæfi. Kökubasar og hið gríðarlega skemmtilega köku-uppboð kvenfélags Hríseyjar er á sínum stað á skírdag. Í fyrra voru slegin met og heyrst hefur að kvenfélagskonur fletti uppskriftum og horfi á kökuskreytingarmyndbönd á YouTube í öllum frítíma sínum til þess að slá nýtt met í ár með glæsilegu kökuborði!
Kristín Björk Ingólfsdóttir opnar ljósmyndasýningu í Sæborg sem fjallar um Tinnitus. Kristín Björk er öflugur áhugaljósmyndari og margar fallegar myndir eftir hana birst t.d í hópnum Hrísey - myndir og fréttir á Facebook. Verður sýningin opnuð á skírdag klukkan 14:00 og verður opin til og með 30.mars.
Heyrst hefur að verið sé að setja spurningar á blað og jafnvel ýjað að því að eyjaskeggjar og gestir ættu að hita upp raddböndin... Til þess að vita meira verðið þið, enn og aftur, að fylgjast vel með viðburðadagatalinu sem og samfélagsmiðlum!
Veðurofsinn sem er yfir okkur núna ætti að yfirgefa svæðið núna í nótt. Enn verður vindur á morgun, eða um 10 m/s og hiti við frostmar. Sunnudagur verður ögn kaldari, það frystir en vind lægir ögn og verður um 5 m/s. Það er því betra að klæða sig vel. Jafnvel nýta helgina til þess að setja upp smá páskaskraut og njóta.