Föstudagsfréttir

Þorrablótsnefnd Hríseyjar 2023-2024
Þorrablótsnefnd Hríseyjar 2023-2024

Frábær og viðamikil vika er liðin frá síðustu föstudagsfréttum.

Upphitun fyrir þorrablót hófst á föstudagskvöldinu þar sem fólk var duglegt að sleppa við eldamennsku með því að panta sér Hríseyjarpizzur eða skella sér á Verbúðina 66. Nafnarnir Ómar Hlyns- og Árna héldu uppi stuðinu á Verbúðinni með gítarspili, söng og glensi. Var fínt að hita upp raddböndin og danssporin fyrir laugardagskvöldið með þeim.

Laugardagurinn rann upp með skárra veðri en hafði verið á undan. Þeir þorrablótsgestir sem urðu veðurteptir á leið sinni til Hríseyjar á föstudeginum náðu að komast alla leið við mikla gleði. Dagskráin hófst með þjóðlegum mjólkugraut og slátri í Hlein í boði Ferðamálafélagsins og eins og alltaf er á þorragraut var fullt hús og stanslaus renningur af fólki. Saddir grautargestir röltu svo niður í Hríseyjarbúðina þar sem borðin voru að svigna undan glæsilegu bakkelsi á kökubasar foreldrafélags og nemendaráðs Hríseyjarskóla! Höfðu foreldrar margir vakað langt fram eftir á föstudagskvöldi við bakstur og greinilegt að mikil vinna og ást var lögð í verkin. Þegar búðin lokað svo klukkan 16:00 voru allar kökur uppseldar! Vilja félögin koma kærum þökkum á framfæri til allra þeirra sem lögðu hönd á plóg við bakstur, undirbúning og til ykkar allra sem styrktuð krakkana með því að kaupa upp allt bakkelsið. Takk!

Eyjaskeggjar og gestir voru svo látin vita með stæl þegar dyrnar á Íþróttamiðstöðinni voru opnaðar og fyrstu gestir boðnir velkomnir á þorrablót! Var stöðugur straumur af fólki í íþróttahúsið frá því húsið opnaði og alveg fram að borðhaldi. Það var eins og maður væri kominn í eitthvað allt annað hús en íþróttasalinn þar sem búið var að skreyta hann frá gólfi og upp í loft! Diskókúlur hengu niður úr loftinu og á móti manni tók fríður flokkur í glimmergöllum. Þorrablótsnefndin hafði svo sannarlega ekki setið auðum höndum síðustu daga og var öll umgjörð upp á 10,5. Blótið opnaði með söng og dansatriði nefndarinnar, geimverum og konfettí-sprengjum. Skemmtiatriðin sem fylgdu á eftir voru hnitmiðuð og bráðfyndin þar sem óspart góðlátlegt grín var gert að nágrannanum og vinum (og föstudagsfréttum). Heyrðust hlátrasköllin yfir á Dalvík og Grenivík og Grímseyingar urðu varir við fjöldasöng. Frábær skemmtun! Hlaðborðið frá Verbúðinni 66 sveik engan þar trogin voru full af þorramat, nýju og súrum, hríseyskum hákarli og laufabrauði. Það fór enginn svangur þaðan frá. Við hjá hrisey.is eigum eftir að semja við þorrablótsnefndina um hvort ekki megi birta annálinn hérna á síðunni fyrir þau sem ekki áttu heimangengt og þannig kitlað undir þeim að mæta að ári.

Samkvæmt venju var heiðursviðurkenningin Kjammi ársins veitt á þorrablótinu. Hlutu hana heiðurshjónin Eygló Ingimarsdóttir og Árni Kristinsson og eru þau sannarlega vel að henni komin. Innilega til hamingju kæru hjón.

Hljómsveitin Súlur hélt svo uppi stuðinu á alvöru sveitaballi, langt fram eftir nóttu. Hafa þeir dáðadrengir spilað á þorrablótum hérna í Hrísey í þó nokkuð mörg ár og segja þeir sjálfir að hér sé hvað best og skemmtilegast að spila. Að sjálfsögðu.

Já. Það er óhætt að segja að þorrablótshelgin hafi verið góð hérna í Hrísey. Voru um 150 manns á blótinu og eyjan iðaði af lífi! Gert var örlítið grín af því að Hríseyingar væru hátíðaróðir þar sem alltaf bætist í bæjarhátíðir hjá okkur... En þetta er svo einfalt. Lífið er eins skemmtilegt og við gerum það og í Hrísey er alltaf gaman!

Krakkarnir í Hrísey hafa líka í nægu að snúast. Leikskóladeildin Smábær bauð eyjaskeggjum í vöfflukaffi á degi leikskólans þann 6.febrúar og gengu elstu krakkarnir í Hríseyjarskóla í hús á miðvikudagskvöldi að safna áheitum fyrir sólahrings íþróttamaraþon sem hófst á hádegi á fimmtudaginn. Er stanslaus hreyfing í 24 klukkutíma og þegar þetta er ritað eru þau við það að klára 24 klukkutíma af leikjum, sundi, fótbolta, körfubolta og ýmsu fleira. Hafa foreldrarnir ekki jafn mikið úthald og skiptu þau með sér vöktum allan tímann. Krakkarnir eru í hópum og er alltaf einhver hópurinn í hvíld eða mat á meðan hinn sér um hreyfinguna. Hafa fyrirtæki, félög og einstaklingar heitið veglega á þau og krakkarnir staðráðin í því að standa sig! Sem við hér á hrisey.is vitum að þau gera.

Hrísey var áberandi á samfélagsmiðlum í vikunni þegar landsþekktir leikarar sóttu eyjuna heim og deildi Jón Gnarr myndum úr heimsókninni. Það er alltaf gaman þegar við fáum gott fólk í heimsókn og sérstaklega er það skemmtilegt þegar þau segja svo vel frá okkur.

Á laugardaginn er lítil kvikmyndasýning í Gamla skóla sem stendur milli 14:00 og 16:00. Eins og áður hefur komið fram hérna í föstudagsfréttum lítum við á það sem mikil forréttindi að fá allt þetta listafólk til okkar, allstaðar að úr heiminum. Það eru sýningar hérna í eyjunni nánast í hverjum mánuði og við hvetjum ykkur til þess að vera dugleg að kíkja á þær.

Hríseyjarpizzurnar eru á sínum stað í kvöld og Verbúðin 66 er á sínum stað á laugardaginn. Íþróttamiðstöðin er opin, potturinn heitur og badmintonnetið klárt fyrir sunnudaginn.

Það getur orðið kalt hjá okkur um helgina þegar frostið getur farið niður í allt að 10 gráður. Vindinn ætti að hægja svo kuldinn ber mann ekki jafn mikið í andlitið eins og hefur verið í vikunni. Sólin er eitthvað feimin og heldur sig að mestu bakvið ský, en við látum það ekki stoppa okkur í útivistinni. Björgunarsveitin er búin að græja gönguskíðabraut og fylgir mynd af brautunum hérna fyrir neðan. Við ljúkum föstudagfréttum með myndum af þorrablótshelginni, vöfflukaffi, íþróttamaraþoni og Hríseyjarfegurð.