Föstudagsfréttir

Dansað í kringum jólatréð
Dansað í kringum jólatréð

Eins og glöggir tóku eftir þá komu engar föstudagsfréttir fyrir viku síðan. Var það sannarlega ekki vegna skorts á fréttum.

Við byrjum fréttir af fyrstu helgi í aðventu þar sem Hríseyingar tóku á móti aðventu með helgistund í Hríseyjarkirkju laugardaginn 26.nóvember. Sungu þar bæði leik og grunnskólabörn og lásu upp úr jólaguðspjallinu. Kór Möðruvallarkirkju söng svo fallega nokkur lög og séra Oddur Bjarni tendraði fyrsta kertið á aðventukransinum. Var svo haldið út í kirkjugarð þar sem kveikt var á leiðalýsingu ættingja og vina sem þar hvíla. 

Sunnudaginn 27.nóvember var jólamarkaður í Verbúðinni 66 þar sem ýmislegt skemmtilegt mátti finna. 

Þann fyrsta desember var kveikt á jólatrénu sem stendur niðri á svæði og í ár var það Johan Jörundur sem kveikti ljósin. Voru teknir nokkrir hringir í kringum tréð og sungin jólalög áður en haldið var í Hríseyjarbúðina þar sem ferðamálafélagið og búðin buðu upp á heitt kakó og smákökur.

Hríseyjarbúðin fékk styrk upp á rúmar 4 milljónir á grundvelli stefnumótandi byggðaáætlana en árin 2022-2023 eru það verslanir í dreifbýli sem hljóta styrki. Kemur styrkurinn sér vel fyrir búðina okkar en Hríseyingar eru stoltir af litlu versluninni sinni sem við komum sjálf á koppinn á sínum tíma. Við hvetjum fólk til þess að versla í heimabyggð því þannig höldum við búðinni okkar hér í Hrísey. 

Um síðustu helgi var foreldrafélag Hríseyjarskóla með jólaföndur í skólanum þar sem hægt var að föndra ýmislegt skemmtilegt. Nemendafélagið seldi vöfflur með rjóma og heitt kakó sem rann ljúflega ofan í föndurgesti. Möndlugrauturinn var á sínum stað í Hlein og voru um 50 gestir sem gæddu sér á úrvals graut. Það voru þrír möndlusigurvegarar þar sem boðið var upp á þrennskonar graut. Sveinbjörn var sá heppni í hefðbundnum graut, Margrét sigraði rúsínugrautinn og Patrekur fann laktósafríu möndluna. Við óskum þeim til hamingju með möndlusigurinn! Vel heppnað og þétt setið jólahlaðborð var á Verbúðinni þar sem vertar reiddu fram glæsi rétti. 

Félagsmiðstöðin Draumur er með piparkökuhúsasamkeppni í gangi og eru þrjár glæsi byggingar/bátar til sýnis í Hríseyjarbúðinni. Húsin eru númeruð og hægt að kjósa uppáhalds húsið sitt með því að rita númer þess á þar til gerð blöð og setja í kosningakassan sem stendur í búðinni. Úrslit verða tilkynnt í næsta föstudagspósti!

Það er opið á Verbúðinni á laugardaginn og á sunnudaginn verða Gunnsteinn Ólafsson (Hjarta Íslands, frá Hrísey til Fagradalsfjalls) og Þórarinn Eldjárn (Tættir þættir) með upplestur úr verkum sínum milli 16:00 og 17:00. 

Það er farið að kólna og snjórinn byrjaður að sína sig. Um helgina verður kalt en bjart sem mun gera það að verkum að Hrísey líti út eins og hún eigi heima í fallegri Jólabíómynd þar sem jólaljósin skína, smákökuilmur liggur yfir þorpinu og heimamenn og gestir fyllast af jólaanda.

   Piparkökuskreytingar  Sveinbjörn Ö. Sigurbjörnsson  Margrét Þóra Sigfúsdóttir  Patrekur Ingólfsson