Föstudagsfréttir
,,Nú er forst á Fróni, frýs í æðum blóð".
Þorrinn er mættur í öllu sínu veldi og byrjar kaldur, hvítur og tíðindalítill hér í Hrísey. Vikan hefur verið frekar róleg hérna hjá okkur, enda öll að safna orku fyrir þorrablótið sem haldið verður þann þriðja febrúar! Miðasala er enn í gangi svo þú getur mætt! Auglýsingin fyrir blótið er hér fyrir neðan og þar eru allar upplýsingar og símanúmer miðasölu.
Sama dag og blótið er verður kökubasar foreldrafélags Hríseyjarskóla svo þessi dagur mun sannarlega hafa það allt, súrmat og sætmeti!
Það er helst að frétta að þorrablótsnefndin hefur sést á þönum um alla eyju að taka upp og græja efni. Hefur nefndin verið svo upptekin að meiriháttar forföll hafa orðið í sunnudagsíþróttum fullorðinna síðustu tvo sunnudaga.
Hríseyjarskóli heldur sitt þorrablót í dag og fóru börnin í Hrísey spennt af stað í skólann í morgunsárið. Var spenningurinn hugsanlega aðeins meiri fyrir skemmtiatriði starfsfólksins heldur en matnum sjálfum...
Í gærkvöldi fór Kvenfélag Hríseyjar um þorpið og seldi bóndadagsblóm. Seldust allir vendirnir og því má leiða líkum að því að margir menn hafi vaknað kátir við blóm og hugsanlega léttan koss frá maka sínum í morgun. Kvenfélagið okkar er eitt af þeim öflum í samfélaginu sem gerir meira en margur gerir sér grein fyrir dagsdaglega því of oft tekur maður litlu hlutunum sem sjálfsögðum. Það er þó skipulag, vinna og samverugleði sem er á bakvið hvern einasta viðburð, skemmtun og uppbrot hérna hjá okkur. Við erum, eins og svo oft hefur komið fram hér í föstudagsfréttum, ótrúlega rík af mögnuðu fólki.
Fyrirtækið Eyjasmíði ehf var stofnað á dögunum og bætist í fríðan flokk atvinnustarfsemi Hríseyjar. Það er merki bjartsýni fyrir framtíðinni hér þegar ungt fólk stefnir á uppbyggingu og fyrirtækjarekstur hér í ey! Til hamingju Narfi og Jóhanna!
Í tilefni bóndadags er kótilettukvöld á Verbúðinni 66 í kvöld og tilavalið að gera vel við sig þar. Er svo lokað á laugardagskvöldinu, enda undirbúningur fyrir þorrablót þar eins og annarsstaðar í Hrísey fram að næstu helgi!
Veðrið hefur aðeins verið að minna okkur á að þorrinn sé að ganga í garð, það sé nú janúar og við búum á eyju við Ísland. Eftir mikið frost í síðustu viku komu hlýindi sem gerði nánast allar götur auðar og brodda óþarfa. Sú göngugleði stóð þó stutt því eftir brjálað rok í gær fór að frysta og snjóa. Er spáð 2-3 gráðu frosti um helgina, lítilli sem engri ofankomu hér í Hrísey og varla vindi. Það eru því ágætis líkur á því að fallegt verði í göngutúrum, með brodda, um helgina. Heiti potturinn í sundlauginni var lokaður í gær vegna viðhalds, en vonandi verður hann í fullu fjöri um helgina og býður upp á góða slökun eftir hreyfingu dagsins.
Þetta eru, svo fréttaritara best minnir, þær allra tíðindaminnstu föstudagsfréttir sem ritaðar hafa verið. Það sést einna best á ríflegu veður-innslagi og mynda-leysi. Þá er gott að muna, engar fréttir eru góðar fréttir!