Föstudagsfréttir
Köld vika er að líða hér í Hrísey. Frostið hefur bitið og vindurinn slegið síðustu daga.
Ungmennafélagið Narfi hélt aðalfundinn sinn í hlýjunni í Íþróttamiðstöðinni þriðjudaginn 16.janúar. Farið var yfir störf síðasta árs og óhætt er að segja að félagið sé öflugt, standi vel að starfi fyrir bæði börn og fullorðna með opnum tímum í íþróttahúsinu, samstarfi við Akureyrarbæ og félagsmiðstöðvar, rafíþróttaæfingar fyrir unglinga og flottum viðburðum hér í Hrísey. Fundurinn ræddi tillögur um hvernig hægt væri að halda upp á afmæli UMFN, en félagið fagnar 60 ára afmæli í febrúar. Miðað við hversu dugleg stjórnin hefur verið að halda úti starfi og viðburðum, þá er enginn efi að haldið verði upp á áfangan með pompi og prakt! Mun koma sér síða hér inni á hrisey.is um Ungmennafélagið og verður þar hægt að lesa ársskýrslu formanns og fræðast um félagið og starfið. Talandi um formann, þá var kosið í stjórn og er hún eftirfarandi; Formaður er Hrund Teitsdóttir, gjaldkeri Ingólfur Sigfússon, ritari Díana Björg Sveinbjörnsdóttir og varamenn eru Jóhanna María Jóhannsdóttir og Gestur Leó Gíslason. Við óskum þeim góðs gengis í áframhaldandi góðum störfum. Áfram Narfi!
Slökkvilið Hríseyjar kom saman í vikunni til æfinga. Aðilar frá Slökkviliðinu á Akureyri mættu út í eyju og æfði okkar flottu kappa á slökkviliðsbílnum. Farið var yfir búnað og fatnað og athugað hvort eitthvað vanti eða þurfi að endurnýja. Var þetta fyrsta æfingin af fimm áætluðum á árinu. Það er í slökkviliðinu eins og annarsstaðar, uppbygging og bjartsýni fyrir komandi tímum!
Bæjarstjórn Akureyrarbæjar samþykkti akstursstyrki vegna íþrótta- og tómstundastarfs barna í Hrísey. Höfum við áður sagt frá þegar fræðslu- og lýðheilsuráð samþykkti styrkinn fyrir sitt leyti hér í föstudagsfréttum en fundargerð frá bæjarstjórn má lesa hér. Samkvæmt úthlutunarreglum getur hvert heimili fengið árlega 50.000 kr styrk vegna æfinga/tómstunda sem stundaðar eru á Akureyri, óháð fjölda barna á heimilinu sem sækja æfingar. Skilyrðin eru að barn hafi mætt að minnsta kosti á 12 æfingar á tímabilinu og búi í Hrísey.
Eins og kom fram hér á síðunni í vikunni liggur fyrir breyting á deiliskipulagi við Austurveg hér í eyjunni. Á Facebooksíðunni okkar, Hrísey, kom fram er þessi vinna gerð í kjölfarið á húsnæðisgreiningu Áfram Hrísey verkefnisins. ,,Þegar ljóst var að húsnæðisskortur væri í Hrísey fór Áfram Hrísey verkefnið af stað í að finna lausnir. Rætt var við félög og verktaka um uppbyggingu í Hrísey. Áhugasamir aðilar svöruðu öll á einn veg - við byggjum bara fjölbýlishús -. Engar fjölbýlishúsalóðir voru í Hrísey og því ljóst að frekari aðgerða var þörf. Eftir fund með skipulagssviði Akureyrarbæjar var óskað eftir breytingum á lóðum við Austurveg úr einbýlishúsalóðum í fjölbýli og hefur sú vinna tekið rúmlega ár. Eftir athugasemdir um fyrstu tillögu frá hverfisráði Hríseyjar var vinnunni haldið áfram og er nú niðurstaða hennar auglýst.
Verið að æfa réttu handtökin Klas og Ingólfur létu ekki kuldan á sig fá Narfi Freyr tekur dansæfingu í leiðinni
Guðmundur og Narfi hjálpast að því sammvinna er lykilatriði Hluti af stjórn UMFN; Ingólfur, Jóhanna, Hrund og Díana