Föstudagsfréttir

Fegurðin allt um kring
Fegurðin allt um kring

Fyrsti föstudagur desembermánaðar hittir á 1.desember, fullveldisdag Íslands. 

Það hefur snjóað í Hrísey þessa vikuna sem gefur eyjunni jólalegan blæ í bland við jólaljósin, smákökuilminn og ferju fulla af innpökkuðum gjöfum. Náttúran hefur sýnt okkur daglega hversu falleg hún og eyjan okkar er með dásamlegum málverkum á himni og glitri á jörðu.

Vikan var að mestu róleg hér í eyjunni. Samfélagið gengur sinn vanagang og ekki lítur út fyrir að jólastressið hafi náð ferjunni hingað út. Þorpið er alltaf að verða bjartara og bjartara þó að daginn stytti. Narfi var mættur um síðustu helgi að setja upp ljósin við Hríseyjarkirkju sem er merki þess að aðventan er handan við hornið. 

Syndum átakið skilaði okkur alla leið inn á Akureyri og í innbæinn! Erum við í 31.sæti núna á föstudagsmorgni eftir að átakinu lauk og syntum við 36,2 kílómetra! Vel gert Hríseyingar!

Það verður nóg um að vera um helgina hjá okkur. Í dag verður kveikt á jólatrénu niðri á svæði klukkan 16:00. Göngum við í kringum ný-tendrað tréð og syngjum saman jólalög og röltum svo í búðina og fáum þar heitt súkkulaði og smákökur í boði Hríseyjarbúðarinnar og Ferðamálafélags Hríseyjar. 

Eftir morgungönguna og léttan hádegisverð á laugardaginn hittumst við í jólaföndri foreldrafélags Hríseyjarskóla klukkan 13:00. Nemendafélagið stendur vöffluvaktina og selur ylvolgar vöfflur og kakó. 

Aðventuhátíð í Hríseyjarkirkju verður klukkan 17:00 þar sem við ætlum að eiga saman ljúfa og hátíðlega stund. Börnin láta ljós sitt skína eins og hefð er og séra Oddur Bjarni leiðir stundina ásamt Þórði organista og kór Hríseyjarkirkju. Eftir stundina í kirkjunni förum við saman út í kirkjugarð þar sem við tendrum á leiðarlýsingu hjá fólkinu okkar sem þar hvílir.

Við minnum á að sniðugt er að fylgjast vel með viðburðardagatalinu hér á hrisey.is því það er ýmislegt að gerast hérna hjá okkur yfir aðventuna og jólahátíðina. 

Veðrið verður áfram með okkur í liði og býður upp á ágætis göngu veður fyrir þau sem það vilja og temmilegan kulda fyrir þau sem vilja frekar vera inni að skreyta piparkökur. Spáð er um þriggja gráðu frost og skýjum. Það lítur út fyrir að við fáum smá snjókomu-pásu en nokkur korn geta þó fallið seinniparta. Vindur er um 4 m/s. 

       

Narfi Björgvinsson setur upp jólaljósin við kirkjuna              Tunglið bjart yfir þorpinu á móti sólu