Föstudagsfréttir

Himininn sýnir fegurð sína yfir Sæborg og Kelahúsi
Himininn sýnir fegurð sína yfir Sæborg og Kelahúsi

Það er sléttur mánuður til jóla í dag og Hrísey fagnar því með hvítum alklæðnaði.

Snjórinn er mættur krökkunum til mikillar gleði. Við biðjum öll sem eru á ferðinni á farartækjum að hafa í huga að sleðar og þotur eru á ferð og gætu slysast út á götu sé færið mjög gott. Gangandi vegfarendur eru búin að ná gríðarlegri færni við að ganga í hálkunni, með og án brodda.

Vikan hefur verið temmilega róleg hér í Hrísey. Húseigendur keppast við að koma upp jólaljósum og er fréttaritari ekki frá því að sést hafi til eyjaskeggja í jólaljósaleiðangri í landi eftir að fréttir bárust af endurrisu jólaljósaviðurkenningarinnar. Það er dásamlegt núna í myrkrinu að sjá öll ljósin og heyra svo jólatónlistina í Hríseyjarbúðinni. Börnin eru mörg hver byrjuð að telja niður í fyrstu opnun dagatala og farin að huga hvaða skór sé nú stærstur og bestur í gluggann. 

Önnur könnunin í stuttri kannanaröð Áfram Hrísey fór í loftið núna í vikunni og er hún um fjarvinnuaðstöðu og mikilvægi hennar. Okkur þætti vænt um ef þið gætuð gefið ykkur tvær mínútur til að svara henni sem er gert hér.

Átakið Syndum gengur frábærlega hér í Hrísey og er sundlaugin okkar núna í 29.sæti af 52, sem er flottur árangur miðað við höfðatölu (eða er ekki enn vinsælt á Íslandi að miða allt við höfðatölu?). Höfum við synt langleiðina inn á Akureyri, þá landleiðina, eða 27,12 km. Við höfum tröllatrú á okkur sjálfum og stefnum inn að Hrafnagili fyrir mánaðarmót! Það er nýtnivika í Íþróttamiðstöðinni og hefur starfsfólk stillt upp óskilamunum á borði frammi við afgreiðslu. Er þar hægt að vitja um týnda sundskýlu, vatnsbrúsa og fleira. Verður farið með allt sem ekki kemst heim eða fær nýtt heimili, í Rauða krossinn eftir næstu viku. 

Heilsan er eyjaskeggjum hugleikin og á Ungmennafélagið Narfi hrós skilið fyrir opnu og gjaldfrjálsu íþróttatímana sína. Góð þáttaka hefur verið í íþróttum fyrir fullorðna á sunnudögum og er þessi tími orðinn ómissandi hjá mörgum. Einnig er fótbolti fyrir 13 ára og eldri á fimmtudögum klukkan 18 og hvetjum við gamla/r Narfakempur að mæta og spila með unglingunum.

Listasýning verður í Gamla skóla á sunnudaginn milli 13 og 15. Er það danska listakonan Unna Hvid sem býður íbúum og gestum að koma og skoða og við hvetjum þau sem geta til þess að kíkja við. Hefur hún verið að mála myndir af húsum hér í Hrísey og þær vakið mikla athygli. 

Kvenfélag Hríseyjar er í fjáröflun eins og sjá má  hér. Endilega hafið samband á hrisey@kvenfelag.is

Föstudagspizzur Hríseyjarbúðarinnar eru á sínum stað í kvöld og fínt að láta búðina um eldamennskuna þennan fallega föstudag.  Vertarnir í Verbúðinni eru enn í fríi svo munið að versla í laugardagskvöldverðinn þegar þið sækið pizzurnar!

Þó snjór sé þá er magnið ekki svo mikið að ófært sé á frisbígolfvellinum og hægt er að rölta gönguleiðirnar á góðum skóm eða stígvélum. Getum við átt von á því að snjór bráðni og götur verði auðar því hitinn getur farið upp í sex gráður á laugardaginn og þrjár á laugardaginn. Þá er ekki spáð næturfrosti. Gert er ráð fyrir lítilli hafgolu og að vindur verði 2 m/s á sunnudegi. Það viðrar því vel til útiveru og smákökubaksturs.

   

Kannast þú við eitthvað hér? Kíktu við í Íþróttamiðstöðinni.                  Sýning í Gamla skóla á sunnudaginn