Föstudagsfréttir

Tunglið hátt á himni fyrir ofan Sólbakka
Tunglið hátt á himni fyrir ofan Sólbakka

Fyrsti föstudagurinn í nóvember er runninn upp. 

Vikan sem er að líða bauð upp á fallegt veður og dásamlega liti hérna í Hrísey. Vetrardagurinn fyrsti var þann 28.október og því formlega kominn vetur hjá okkur og sem smá áminningu um það hefur hvíti liturinn á jörðinni haldið sér aðeins. Frostið hefur verið að bíta í kinnar og biðjum við fólk um að fara varlega á gönguferðum sínum þar sem götur eru mjög hálar á köflum og sum hver búin að draga fram broddana.

Það er greinilegt að Bandarískáhrif svifu yfir eyjuna í vikunni. Að halda upp á Hrekkjavöku er ekki íslenskur siður en hefur þó verið að færast í vöxt að börn klæðist í búninga, fólk skreyti og sumstaðar er gengið í hús. Sum heimili í Hrísey voru skreytt og forvitnir hrukku í kút þegar draugar, beinagrindur og allskyns skepnur sáust í gluggum og hurðum. Furðuverur og draugar sáust á sveimi um helgina og virðuleg húsfrú hér í ey fékk aðeins fyrir hjartað þegar blóðugur draugur bankaði á eldhúsgluggan seint að kvöldi! Á þriðjudeginum, Hrekkjavökudaginn sjálfann, fóru svo kynjaverur og skrímsli í Hríseyjarskóla að læra og á kvöldvöku síðar um daginn. Sumum drengjum í eyjunni fannst það nú ekki nóg og ruku af stað, án þess að láta foreldra vita, gengu í hús og birtust svo heima hjá sér með fulla seiðkatla af sælgæti og tannbursta! Það er nú í skoðun hvort við ættum að taka þennan sið upp frá Bandaríkjunum og auglýsa að ári svo fólki bregði ekki þegar uppvakningar banki upp á.

Kirkjukór Hríseyjarkirkju er að leita að nýjum meðlimum og auglýst var á  Facebook síðu okkar eftir nýliðum í vikunni. Hæfileikar eru aukaatriði, áhugi og gleði skipta þar mun meira máli og því ættu flestir að geta mætt á æfingu og prófað að vera með. Æft er tvisvar í mánuði og þá klukkutíma í senn.

Í vikunni mættu til Hríseyjar fulltrúar frá HSN á Dalvík, Slökkviliði Akureyrarbæjar og fulltrúar Svæðisstjórnar á svæði 11, á fund með Björgunarsveit Hríseyjar, Slökkviliði Hríseyjar (deild út frá Slökkviliði Akureyrarbæjar) og fyrstu viðbragðsaðilum hér í Hrísey. Var verið að ræða framtíð sjúkraflutninga, samvinnu og fræðslu fyrir sjúkraflutninga og fyrstu viðbrögð hér í Hrísey. Var fundurinn góður og munu niðurstöður hans og framtíðar áform verða gerð ljós síðar.

Ráðið hefur verið í stöðu þjónustu og upplýsingafulltrúa Akureyrarbæjar í Hrísey. Ásrún Ýr Gestsdóttir mun hefja störf þann 8.nóvember og verður auglýstur opnunartími skrifstofu bæjarins í Hlein síðar.

Covid, okkar gamli vinur, hefur verið að troða sér í heimsóknir hér í eyjunni. Okkur er ekkert vel við þennan gest svo við hvetjum öll til þess að fara varlega og vera heima ef vart er við veikindi. Það er alltaf hægt að finna eitthvað að horfa á á Netflix eða gamla góða Ríkissjónvarpinu. Svo býður Hríseyjarbúðin upp á heimsendingu svo maður þarf ekkert að vera á ferðinni slappur.

Tveir bæjarfulltrúar frá Framsóknarflokknum tóku vinnudag í Hrísey í vikunni og buðu íbúum að koma í spjall. Erum við alltaf til í að fá bæjarfulltrúa í heimsókn að ræða málin og nýttu sér nokkrir eyjaskeggjar tækifærið að ræða málin við pólitíkina. Málefni Hríseyjarferjunnar voru m.a rædd, en ekki er komið í ljós hvernig þeim málum verður háttað eftir 31.desember. Hefur nú bæjarráði verið greint frá stöðunni sem og Byggðastofnun og SSNE þar sem óvissa er aldrei góð. Vonandi fáum við skýr svör frá Vegagerðinni á allra næstu dögum svo við sem hér búum og störfum vitum hvað framtíðin ber í skauti sér.

Um helgina er Konukvöld á Verbúðinni 66 og munu hríseyskar konur og gestir skemmta sér saman. Í kvöld verður pizzaofninn í Hríseyjarbúðinni í gangi svo það er um að gera að panta sér flatböku. Sundlaugin verður opin og potturinn heitur, badmintonið á sínum stað á sunnudegi og enn leyfir veðurguðinn okkur að nýta frisbígolfvöllinn! Þau sem ætla að skella sér í göngu á rauðu leiðinni verða að fara varlega þar sem getur verið hálka á stígnum við klettabrúnir. Veðrið fer áfram nokkuð mjúkum höndum um okkur. Hiti rétt yfir frostmarki og þurrt en sólin tekur sér helgarfrí. Það getur blásið meira en síðustu daga, eða um 10 m/s.

Njótið helgarinnar í Hrísey.

 

            Fallegur vetrardagur við höfnina í Hrísey                                          Bæjarfulltrúar hittu eyjaskeggja