Föstudagsfréttir
Upp er runninn föstudagur í 42 viku ársins 2023 og komið að föstudagsfréttum úr Hrísey.
Þessa vikuna voru krakkarnir í Hrísey í brennidepli og miðpunktur félagslífsins. Á miðvikudeginum var haldið skólaþing í Hríseyjarskóla þar sem starfsfólk skólans, nemendur, foreldrar og aðilar í samfélaginu kom saman að ræða Hríseyjarskóla, starfið og samfélagið. Það hefur oft komið fram hér í föstudagsfréttum hversu öflugur og mikilvægur skólinn okkar er hér í Hrísey og því frábært að öllum sem dvelja í Hrísey hafi verið boðið á skólaþingið. Skólinn heldur nokkra af stærstu viðburðum eyjarinnar yfir vetrartímann og hefur samfélagið allt notið góðs af. Enn og aftur, til starfsfólks, velunnara og nemenda Hríseyjarskóla, takk fyrir ykkur!
Krakkarnir voru svo aftur á ferð þegar félagsmiðstöðin þeirra, Draumur, bauð öllum eyjaskeggjum í heimsókn í tilefni viku félagsmiðstöðva og ungmennahúsa. Hrærðu krakkarnir í vöfflur, þeyttu rjóma og skelltu í súkkulaðiglassúr handa gestum, á milli þess sem allir gestir á öllum aldri voru dregin í stórfiskaleik, dans og gulrótaleik, svo fátt eitt sé nefnt. Var vel mætt og fengu 55 manns vöfflur hjá krökkunum! Við þökkum félagsmiðstöðinni kærlega fyrir þetta skemmtilega boð.
Talandi um félagsmiðstöð, þá er farin að myndast félagsmiðstöðvarstemning í Verbúðinni í hádeginu á miðvikudögum þegar súpudagar eru. Það er iðnaðarfólk að störfum í eyjunni og þó nokkrir einstaklingar sem vinna í fjarvinnu svo þetta er kjörið tækifæri til þess að hitta aðra, spjalla og gæða sér á góðum mat.
Höldum svo aðeins áfram með mat. Hríseyjarbúðin birti í byrjun vikunnar nýjan matseðil sem sjá má á facebook síðu búðarinnar. Búðin er opin í hádeginu alla daga vikunnar utan miðvikudag svo það er upplagt að leyfa sér glæpsamlega góðan hamborgar eða samloku í hádeginu þar. Svo að sjálfsögðu eru Hríseyjarbúðarpizzur öll föstudagskvöld!
Ungmennafélagið Narfi boðaði stjórn og þjálfara á fund í vikunni þar sem farið var yfir starfið. Er það öflugur hópur sem starfar í Narfa með fjölbreytt og skemmtilegt starf fyrir börn og fullorðna. Er UMFN í samstarfi við Akureyrarbæ með félagsmiðstöðina, félagið heldur úti rafíþróttaæfingum og svo eru körfuboltaæfingar tvisvar í viku fyrir 12 ára og eldri. Síðan má ekki gleyma badminton og öðrum íþróttum á sunnudögum fyrir fullorðna fólkið og bumbuboltanum á fimmtudögum fyrir 13 ára og eldri. Það er sannarlega nóg að gera í hreyfingu hjá Hríseyingum.
Eins og fram kom hér á síðunni þá er Hríseyjarferjan Sævar á leið í smá viðhald eftir helgina. Konsúll leysir af og mun ekki vera hægt að hýfa þá daga sem hann er.
Við viljum minna íbúa í Hrísey á vinafjölskyldu-verkefnið sem við erum að fara af stað með. Við hvetjum öll áhugasöm til þess að hafa samband við Ásrúnu á netfangið afram@hrisey.is eða heyra í henni í síma 866-7786 ef einhverjar spurningar eru. Hæg er að lesa um verkefnið hérna.
Leit að leiguhúsnæði fyrir einstaklinga og fjölskyldur stendur enn og við biðjum þau sem geta leigt út húsnæði að hafa samband við Ásrúnu á afram@hrisey.is eða í síma 866-7786 fyrir frekari upplýsingar.
Um helgina er nóg um að vera. Sundlaugin er opin og potturinn heitur svo það er alveg tilvalið að kíkja þangað eftir góðan göngutúr um eyjuna. Verbúðin er með eldhúsið opið til 20:30 á laugardaginn og þegar gestir hafa kyngt síðustu frönskunni, þá eru spilin dregin upp á spilakvöldi Verbúðarinnar! Hvetjum öll til að mæta með spilabunka, borðspil eða spurningaspil. Það er alltaf gaman að læra ný spil og kenna öðrum sín uppáhalds.
Veður verður nú nokkuð til friðs miðað við rokið í vikunni. Hiti verður "réttu megin" við núll gráðurnar, eða frá 2 gráðum í plús upp í allt að 8 gráður í plús! Næstum því stuttbuxnaveður miðað við árstíma. Vindur ætti að vera að suð-austan og allt að 8 m/s. Það er því öruggara að geyma stuttbuxurnar þó sólin láti sjá sig aðeins. En kuldaskór innan þorps verða algjör óþarfi.
Krakkarnir fengu foreldra með í leiki Öll saman í stórfiskaleik Krakkarnir í félagsmiðstöðinni á vöffluvakt Stjórn og þjálfarateymi UMF Narfa 2023-2024