Föstudagsfréttir
Föstudagur og það snjóar í Hrísey.
Veturinn er að minna rækilega á sig þessa vikuna og kemur með veðurviðvörunum í öllum sínum gulu og appelsínugulu litum. Ekki nóg með það heldur sendi Vegagerðin út viðvörun vegna ölduhæðar á þriðjudaginn. Enda ákváðu skipstjórar Hríseyjarferjunnar að vera skynsamir eftir að hafa komið þeim sem vinna í landi áleiðis til vinnu sinnar, að fara hvorki 9 ferð eða 11 ferð þann morguninn. Farþegum stóð svo ekki á sama á ferðum sínum seinnipartinn en flestir farþegar voru þó vanir eyjaskeggjar. Segir það nú bara allt sem segja þarf um hversu illa sjórinn lét og veðrið almennt við okkur hér. Við sluppum þó vel hér í Hrísey og voru engin óveðurstengt útköll hjá Björgunarsveitinni og ekki hefur fréttaritari heyrt um skemmdir. Nágrannar okkar á Grenivík voru ekki svo heppnir þar sem skemmdir urðu á flotbryggju vegna veðurs.
Hríseyjarskóli er að vinna með þemað sjálfbærni og náttúran í október og hafa í tilefni þess sett upp saumaaðstöðu á bókasafninu þar sem gestum býðst að koma og gera við flíkur eða gefa þeim nýtt líf (t.d er hægt að sauma fjölnotapoka til að nota þegar maður verslar í Hríseyjarbúðinni). Við hvetjum eyjaskeggja og gesti til þess að nýta sér þessa aðstöðu.
Vertarnir í Verbúðinni 66 eru að bjóða upp á nýjung, Súpuhádegi á miðvikudögum, sem er frábært framtak og góð viðbót við þjónustuflóruna í Hrísey. Verða matarmiklar súpur og brauð á boðstólum með kaffi og smá sætu á eftir. Þarna er gullið tækifæri fyrir þau sem vinna í eyjunni til þess að koma saman í hádeginu, spjalla smá og sleppa því að útbúa sér nesti á miðvikudögum.
Í vikunni samþykkti Skipulagsráð erindi um áningastaði í Hrísey og hægt er að lesa um málið hér. Skipulagsmál hafa verið stórt mál hjá Áfram Hrísey sem og Hverfisráði Hríseyjar. Hefur Hverfisráð fundað með skipulagssviði og var sá fundur góður og munum við vonandi sjá árangur hans næsta árið. Ásrún Ýr, ásamt Albertínu F. Elíasdóttur, framkvæmdarstjóra SSNE, átti fund með Ásthildi bæjarstjóra í vikunni. Þar voru skipulagsmál rædd enn frekar og áhersla lögð á mikilvægi þess að klára ákveðin lóðamál og deiliskipulag í Hrísey. Mikill áhugi er á Hrísey á öllum vígstöðvum, til að mynda á uppbyggingu orlofshúsa, íbúðahúsnæðis og atvinnu. Það er því mjög mikilvægt að vinna vel með sveitarfélaginu og finna leiðir til þess nýta þennan áhuga og efla hérna atvinnu og samfélag.
Fyrr í vikunni var auglýst eftir húsnæði til leigu. Fólk, einstaklingar og fjölskyldufólk, hefur af og til samband við Áfram Hrísey verkefnið og biður um aðstoð við að finna húsnæði. Við ítrekum því ósk okkar hér að hverjir þeir sem eiga fasteign í Hrísey til útleigu, hafi samband við Ásrúnu á afram@hrisey.is og hún kemur leigjanda og leigusala saman.
Eins og glöggir og tryggir lesendur hrisey.is hafa eflaust tekið eftir hafa afmælisbörn ekki komið inn lengi. Er ástæðan einfaldlega sú að sú sem ritar inn afmælisbörnin hefur ekki fengið uppfærðan íbúalista síðan í vor. Eins og áður hefur komið fram þá eru afmælisbörn nefnd sem skráð eru með lögheimili í Hrísey og er sá listi síbreytilegur (eins og afmælisdagaritari hefur sannarlega fengið að reyna á). Það stefnir þó allt til bóta og munu öll þau sem ekki hafa fengið formlegar afmæliskveðjur frá hrisey.is fá þær fljótlega!
Talandi um afmælisbörn, þá átti Mikael Sigurðsson stórafmæli fyrir stuttu síðan. Við nefnum hann nú sérstaklega því hann kom í stutt viðtal í blaðinu Heimildin sem hægt er að lesa hér og við hvetjum ykkur að lesa. Þar dásamar hann Hrísey, enda ekki hægt annað.
Föstudagsfréttum fylgja fáar myndir í þetta sinn. Fréttaritari viðurkennir alveg skammlaust að hún tók lítið upp myndavélina í rokinu og bleytunni. Við tökum alltaf glöð á móti myndum ef lesendur hafa áhuga á að eiga myndir hér á heimasíðunni, endilega sendið þær á afram@hrisey.is og við munum að sjálfsögðu greina frá eigenda hverrar myndar sem er notuð.
Veðrið um helgina fer með okkur niður í allt að -4 gráður og upp í 6 gráður í plús. Það gæti snjóað smá sem gæti svo breyst í rigningu. Miðað við veður í upphaf viku er nú bara næstum því logn, eða um 3-6 m/s. Við mælum því með snjóbuxum stundum, vindbuxum annars, kuldaskóm sem mest en stígvélum með og án ullarsokka líka. Fer eftir hvenær dags þú ferð í göngutúrinn. Úlpan er alltaf góð, húfa og prjónvettlingar er orðinn staðalbúnaður.