Föstudagsfréttir
(ljósmynd, Gestur Leó Gíslason)
Þá er kominn föstudagur eftir ansi blauta viku hér í Hrísey.
Stærstu fréttirnar frá eyjunni þessa vikuna er úrskurður kærunefndar útboðsmála felldi úr gildi ákvörðun Vegagerðarinnar um að ganga til samninga við óstofnað einkahlutafélag. Var fjallað um úrskurðinn á öllum fréttamiðlum og hægt er að lesa fréttir af akureyri.net hér og hér. Fréttir birtust einnig á Rúv og Mbl. Eru nú ferjumál því aftur í brennidepli og við fylgjumst vel með gangi mála.
Verkefnastjórn Áfram Hrísey fundaði í vikunni og fór yfir stöðu mála. Hefur fjarvinnusetrið verið auglýst með afspurnum en stefnt er að spýta í lófana og setja inn síðu um aðstöðuna, leiguverð og hvernig maður ber sig að við að bóka hér inn á heimasíðuna okkar. Hefur verið eftirspurn eftir aðstöðinni það sem af er ári og orðsporið er gott. Við viljum því nýta þennan meðbyr vel og kynna aðstöðuna enn betur fyrir þeim sem geta nýtt sér hana, bæði heimafólk sem og gestir til lengri og/eða skemmri tíma. Einnig var farið yfir nokkra af þeim styrkjum sem í boði eru fyrir ýmist tilefni, uppbyggingu, nýsköpun og framkvæmdir sem áhugasamir geta sótt um í. Þar kemur Þróunarfélag Hríseyjar sterkt inn sem umsóknaraðili fyrir þá meðlimi sem áhuga hafa á að búa til, efla það sem fyrir er eða fá aðstoð og leiðbeiningar hvernig hægt sé að bera sig að við að koma hugmynd í framkvæmd. Verkefnisstýra Áfram Hrísey, Ásrún Ýr, heldur utan um þá styrki sem hægt er að sækja um og eru þeir jafn fjölbreyttir og margir eins og fuglalífið okkar hér í Hrísey. Mun listi yfir hvaða styrkir eru í boði hér á svæðinu verða birtur á heimasíðunni í nánustu framtíð.
Það var 22.september 2022 sem Ásrún Ýr Gestsdóttir var ráðin inn sem verkefnisstýra Áfram Hrísey og er verkefnið því formlega eins árs í dag. Til hamingju með það við öll! Fyrir utan að setja inn föstudagsfréttir, halda úti samfélagsmiðlum og vera í sambandi við fréttamiðla, þá hefur Ásrún unnið að ýmsum verkefnum. Það er reglulegt samtal við starfsfólk Akureyrarbæjar þar sem ábendingum er komið fram um hvernig hægt sé að ýta undir sérstöðu Hríseyjar með upplýsingum og sýnileika hjá sveitarfélaginu. Fólk hefur verið í sambandi við Ásrúnu sem er í húsnæðisleit, til bæði lengri og skemmri tíma og hefur Ásrún einnig verið aðilum innan handar með að finna leigjendur. Hefur hún tekið á móti nýbúum með hafsjó af upplýsingum um samfélagið, hvernig við förum með rusl og að á sunnudögum sé badminton í Íþróttamiðstöðinni. Vinnur verkefnið náið með SSNE sem og öðrum byggðaþróunarverkefnum hjá Byggðastofnun. Samtöl og fundir með fólki um land allt sem hefur áhuga á framþróun og uppbyggingu í Hrísey eiga sér stað í hverjum mánuði þar sem aðilar hafa tekið undir með okkar verkefnum með þrýstingi til stjórnvalda og fyrirtækja. Þá hefur Ásrún einnig verið að grúska í allskyns hugmyndum sem hafa komið upp til uppbyggingar í Hrísey síðustu 23 árin. Hefur hún tekið þær hugmyndir sem vel hafa staðið tímans tönn, borið saman við styrki, rætt við aðila sem hugsanlega gætu haft áhuga á viðkomandi verkefni, kannað grundvöll og möguleika og þannig vingsað út nokkrar áhugaverðar hugmyndir sem hægt er að vinna með áfram. Ýmis önnur tilfallandi verkefni hafa ratað inn á borð verkefnastýru og ýtrekar Ásrún að það sé alltaf hægt að hafa samband hafi fólk áhuga á að ræða hugmyndir, verkefnið Áfram Hrísey og málefni Hríseyjar almennt. Það er því mikið unnið bakvið tjöldin og bara toppurinn á ísjakanum sem birtist á samfélagsmiðlum og hér í föstudagsfréttum. Hefur íbúm í Hrísey fjölgað, umfjöllun á landsvísu hefur aukist, útleiga í fjarvinnusetri er í vexti og er almenn jákvæðni og bjartsýni í og fyrir Hrísey mikil.
Það er komið að fyrstu menningarhelginni í vetur núna um helgina! Það er uppistand með Bergvini Oddssyni (Beggi Blindi) á Verbúðinni 66 á laugardaginn klukkan 21:00. Við mælum með að kíkja á Begga þar sem hann er með nýtt efni og sinn gamla góða svarta húmor. Það má geta þess að Beggi hefur verið mikill stuðningsmaður Hríseyjar og er í reglulegu sambandi við Ásrúnu um áhugaverð verkefni, almenningssamgöngur og landsbyggðarspjall.
Á sunnudaginn bjóða listamenn í Gamla skóla upp á list- og ljóðalestursdag í Hrísey. Andrée-Anne Mercier, Natalie De Paz og Magaly Vega hafa verið í Gamla skóla þennan mánuðinn og verða með verk sín til sýnis og upplesturs milli 15:00-18:00. Endilega kíkið við og sjáið hvernig Hrísey hefur veitt þeim innblástur í list sinni.
Veðrið býður upp á inniveru, uppistand og list. Hiti fer hæst í 7 gráður á laugardaginn og eins og vikan hefur verið, þá má gera ráð fyrir að þvottur sé best geymdur inni vegna rigninga.