Föstudagsfréttir

Unnið við stígagerð á rauðu leiðinni
Unnið við stígagerð á rauðu leiðinni

Þá er septembermánuður hálfnaður og komið að föstudagsfréttum úr Hrísey.

Fyrr á árinu fengum við styrk úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða til þess að byggja upp rauðu gönguleiðina hérna í Hrísey. Miðar framkvæmdum vel og við hvetjum sem flest til þess að lengja aðeins göngutúrinn sinn á meðan viðrar vel og rölta nýja og gamla slóðan. Muna bara að taka með sér vatn, jafnvel nesti og njóta, ekki þjóta!

Það er ágætt að minna öll á að vetraropnanir og tímar eru aftur í gildi hér í ey. Hríseyjarbúðin, Verbúðin 66, Hríseyjarferjan Íþróttamiðstöðin og Gallerý Perla hafa breytt opnunartímum og áætlunum. Hægt er að nálgast upplýsingar hérna á síðunni.

Heilsuráð Hríseyjarskóla hvetur eyjaskeggja og gesti til hreyfingar og er með hópgöngu alla mánudaga og miðvikudaga klukkan 16:30. Það er gengið frá Hríseyjarbúðinni og verður gegnið til og með 4.október. Endilega skellið ykkur með þeim, svona ef ykkur hugnast ekki að fara rauðu leiðina. Eða bara gera bæði!

Það er farið að kólna enn frekar og miðað við farsíma fréttaritara í morgun var hitinn í -2 gráðum. Það er því óhætt að kíkja á grænmetisgarðana ef þið eruð ekki þegar búin að því, huga að kartöflum, útihúsgögnum og byrja að koma garði og húsnæði í vetrarhaminn. Rjúpan er að hvítna og það er ekki sami fuglasöngur sem vekur eyjabúa upp á morgnanna. 

Opnað hefur verið fyrir umsóknir í Uppbyggingasjóð og hvetjum við áhuga og framtaksama til þess að sækja um. Hægt er að fá aðstoð og upplýsingar hjá bæði Ásrúnu á afram@hrisey.is sem og hjá starfsfólki SSNE.

Framkvæmdum við Austurveg er lokið, í bili að minnsta kosti og því aftur opið fyrir akandi umferð eftir götunni. Ef rölt er út Austurveginn má sjá aðra framkvæmd sem gengur vel fyrir sig en þar er að rísa orlofshús! Það má segja að nóg sé að gera hjá iðnaðarfólki hér í eyjunni og varla líður sá dagur að ekki komið fólk úr landi að vinna hér við uppbyggingu, viðhald og framkvæmdir. 

Við minnum á íþróttir fyrir fullorðna á sunnudögum og boltaíþróttir fyrir 13 ára og eldri á fimmtudögum. Flest er að verða komið hér í viðburðadagatalið á síðunni en það á enn eftir að setja ýmislegt skemmtilegt inn. 

Um helgina fer sólin í frí og lætur ský og jafnvel smá rigningu sjá um okkur. Hiti gæti farið mest upp í 10 gráður og suðaustan vindur. Það er því gott að huga að áðurnefndu græmeti, kartöflum og útihúsgögnum strax í dag.