Föstudagsfréttir

Haustkvöld við höfnina
Haustkvöld við höfnina

Föstudagsfréttir eru mættar.

Það fjölgar gulum og appelsínugulum laufum á götunum og sjaldan sem heyrist í slátturvél þegar maður maður gengur um þorpið. Hrísey er að verða fullklædd haustskrúðanum. Með haustinu kemur rútína á mörgum heimilum. Félagsstarf Ungmennafélagsins Narfa er farið af stað ásamt félagsstarfi krakkanna í Hrísey. Verið er að setja dagskrána hér inn á heimasíðuna svo að það sé auðvelt að kíkja hingað inn og sjá hvað er í boði í hverri viku. 

Núna í sumar var klárað að reisa eitt hús í frístundabyggðinni á Búðartanga og vel gengur að reisa orlofshús við Austurveg. Eins og fram kom í síðustu föstudagsfréttum þá hefur íbúum líka fjölgað og því óhætt að segja að uppgangur sé í eyjunni.

Bæjarráð Akureyrarbæjar samþykkti fyrr í september að bæjarfulltrúar skiptist á að sitja fundi, á staðnum eða í fjar, með hverfisráðinu. Hefur þetta fyrirkomulag verið áður og mikil ánægja að það skuli vera tekið upp aftur. Fundargerðir hverfisráðs Hríseyjar eru aðgengilegar á heimasíðu sveitarfélagsins, en til þess að auðvelda áhugasömum lífið örlítið, þá set ég tengil hérna.

Auglýst var eftir umsóknum í stöðu Þjónustu- og upplýsingafulltrúa í Hrísey núna í vikunni. Er staðan 50% og því hentug meðfram námi, með öðrum verkefnum og líka bara fyrir þau sem vilja og geta unnið skemmtilegt og krefjandi 50% starf. Áhugasöm um starfið geta lesið sér til og sótt um hér. Hægt er að hafa samband við Ásrúnu hjá áfram Hrísey á netfangið afram@hrisey.is ef einhverjar spurningar varðandi húsnæði og/eða samfélagið eru. Hún getur reddað ótrúlegustu hlutum og veit ansi margt um samfélagið.

Framkvæmdir standa yfir í hluta Austurvegar og er lokað fyrir bílaumferð. Hjáleið er merkt niður með Sæborg og slóðan þar við varnargarðinn. Við fögum öllum framkvæmdum sem bæta og efla byggðina okkar.

Skipulagsráð Akureyrarbæjar samþykkti fyrr í sumar vinnu við breytingar á tveimur lóðum við Austurveg. Eftir umsögn frá hverfisráði var upphaflegum tillögum breytt og samþykkt að fela skipulagssviði að vinna að breytingum á deiliskipulagi til samræmis við nýja tillögu. Getum við þá átt von á því að fá tvær lóðir sem ætlaðar eru undir par/rað eða fjórbýlishús við Austurveg 15-17. Hægt er að lesa þessa fundargerð skipulagsráðs hér.

Um helgina leikur Kári um eyjuna, þá vindurinn, ekki fyrrum sóknarprestur. Við getum átt von á bleytu á laugardeginum og hitinn verður á bilinu 5-10 gráður. Það er því kominn tími á að pússa stígvélin og hrista rykið úr treflinum. Munið að bros kostar ekkert og áframhaldandi bjartsýni yfir framtíð Hríseyjar á sannarlega rétt á sér.

   

    Haustlitirnir eru áberandi um alla Hrísey                                                                                                  Það er rólegra niðri á svæði eftir að skólinn byrjaði aftur