Föstudagsfréttir

Sólarlag við höfnina
Sólarlag við höfnina

Í dag er föstudagurinn 25.ágúst og þó nokkrir föstudagar liðnir frá síðustu fréttum.

Svo að lesturinn verði ekki of langur og lesendur freistist ekki til þess að skauta hratt yfir, þá tökum við sumrið fyrir í smá pörtum og stiklum á stóru næstu föstudaga.

Síðustu föstudagsfréttir bárust föstudaginn fyrir Hríseyjarhátíð. Hátíðin lukkaðist stórkostlega vel þar sem tæplega þúsund gestir heimsóttu okkur og skemmtu sér konunglega í góðu veðri undir góðri dagsskrá. Hægt er að skoða "reel" frá Hríseyjarhátíðinni, Hinsegin dögum og Danshátíð Hríseyjar á bæði Facebook síðunni okkar og á Instagram síðunni. Svo ætti fréttaritari auðvitað að finna út úr því hvernig og hvort sé ekki hægt að færa þessi ör-myndbönd/Reel hingað inn á síðuna fyrir þau sem ekki halda úti samfélagsmiðla.

Þegar árið 2023 hófst voru skráðir 161 íbúi í Hrísey. Núna þegar haustar þetta sama ár hefur okkur fjölgað um 12 manns. Skráðir íbúar í Hrísey fimmtudaginn 24.ágúst telja 173 einstaklinga! Hafa íbúar ekki verið fleiri síðan árið 2011 þegar 177 manns voru skráði í eyjunni. Er þetta frábær þróun fyrir Hrísey og sveitarfélagið. Til hamingju við!

Eftir stórgóðan júní, veðurfarslega séð, var fréttaritari örlítið fegin því að þurfa ekki að færa ekki eins góðar veðurfregnir í júlí. Nokkrir hlýjir og góðir dagar komu með sól og jafnvel logni. En voru þeir heldur færri en þeir gráu og köldu. Gleymdu eyjaskeggjar og gestir því stundum að árstíðin sumar væri enn yfirstandandi þegar verst var og svo virðist sem aðalbláberin og bláberin hafi gert það líka. Sagan er sú að berin séu heldur smá í ár og óþarflega fá. Svo virðist þó vera sem fuglarnir finni nóg af berjum því eru þeir byrjaðir að mála stéttar, palla og einstaka lök með sínum fagur berjabláa lit. Við misgóðar undirtektir mannfólksins.

Hinsegin dagar í Hrísey voru haldnir síðustu helgina í júlí og heppnuðust þeir alveg dásamlega vel. Enn var eyjan full af gestum sem margir stoppuðu yfir alla helgina og komu langt að. Hinsegin fánum var flaggað um allt þorp og samstaðan og gleðin sveif yfir Hrísey. Er stefnt á að halda hátíðina aftur að ári og mörgum strax farið að hlakka til.

Danshátíðin í Hrísey var svo um liðna helgi og ekki var minni gleði þá hér í eyjunni. Danstónlistin ómaði um allt þorp og fór ólíklegasta fólk að taka létt spor. Ekki bara í Sæborg heldur um götur Hríseyjar og jafnvel inni í búð! Var hátíðin vel sótt og skemmtu hátíðargestir sér vel.

Hríseyjarskóli var settur nú í vikunni og eru nemendur í grunnskólanum 15 talsins og sex börn eru á leikskóladeildinni. Hafa krakkarnir farið glöð af stað í skólabyrjun og rútínu, þó gleðinni sé örlítið misskipt eftir aldri. Fóru krakkarnir í Hríseyjarskóla í smá ferð í land í gær og komu svo sæl og kát til baka. Hríseyjarskóli er einn af hornsteinum samfélagsins hér í Hrísey og verður gaman að sjá hvernig starfið þar fléttast inn í lífið okkar hér í eyjunni í vetur. 

Núna um helgina verður veður hlýtt en að öllum líkindum ansi blautt. Það er því fullkomið veður fyrir veiðiferð en heldur verra fyrir stórþvotta.

Föstudagsfréttir snúa aftur í næstu viku, sem og fastir liðir á safmélagsmiðlum. 

  Hríseyjarhátíð  

       Gestir á Hinsegin dögum í Hrísey                                     Brekkusöngur á Hríseyjarhátíð                                          Hrísey býr að fallegri náttúru