Föstudagsfréttir
Haustleg vika er að líða hér í Hrísey. Veður hefur verið kalt, blautt og heldur mikið á ferðinni.
Það var vel mætt á Hreinsunardag Hríseyjar síðasta laugardag. Var fólki skipt í nokkra hópa og hver hópur fékk svæði úthlutað sem hann hreinsaði. Var mikið talað um hversu lítið rusl væri núna síðustu árin miðað við fyrstu hreinsunardagana en Hríseyingar voru langt á undan sinni samtíð og byrjaðir að plokka og flokka á undan flestum. Enda ber eyjan þess merki að hugsað sé vel um hana og náttúruna. Eftir að öll voru búin að skila sér niður á hátíðarsvæði grillaði hverfisráðið pylsur og hamborgara handa svöngum hreinsurum. Var stemningin góð og ánægja með góðan dag.
Auglýst var eftir umsóknum í stöðu umsjónakennara í Hríseyjarskóla í vikunni og hvetjum við öll til þess að vera dugleg að deila auglýsingunni, nú eða sækja um sjálf séu kennsluréttindi í vasanum. Hægt er að lesa um starfið og sækja um hér.
Krakkarnir í Hríseyjarskóla héldu vorgrill í félagsmiðstöðinni Draum og brugðu sér í leiki. Þau létu ekki veðrið stoppa sig og leystu þrautir um alla eyju, fóru í boðhlaup og gæddu sér svo á pylsum og frostpinna. Íþróttamiðstöðin, sem er heimahús Draums, var upptekin þar sem stjórnendur sem starfa hjá Akureyrarbæ voru í eyjunni á starfsdegi. Það er alltaf gaman að fá gesti frá Akureyrarbæ hingað út í Hrísey og við vonum að þau hafi haft gaman að heimsókninni. Nokkrum krökkum datt í hug að skora á þau í leiki en því miður náðist það ekki.
Þó að veðrið hafi ekki verið sérstaklega sumarlegt síðustu daga hefur það ekki stoppað ferðamenn frá því að heimsækja eyjuna. Enda er alltaf gott, gaman og fallegt að heimsækja Hrísey sama hvernig viðrar.
Þróunarfélag Hríseyjar er í undirbúningi eins og komið hefur fram á síðunni. Verið er að vinna að frekari upplýsingagjöf og munum við sjá til þess að spurningum verði svarað svo endilega fylgist vel með hérna á hrisey.is.
Ásrún fór fyrir hönd Áfram Hrísey verkefnið á vinnustofu hjá ,,Tunglskotin heim í hérað ll". Þróuðu þáttakendur saman hugmyndir í átt að raunhæfum verkefnum, sem ætlað er að styðja við nýsköpunarvistkerfið. Er þetta liður í verkefninu ,,Að rækta vistkerfi nýsköpunar í dreifðum byggðum". Lærði hún margt sem nýtast mun verkefninu Áfram Hrísey, ásamt því að efla tengsl við aðila innan byggðaþróunar og nýsköpunar. Hægt er að kynna sér verkefnið og Tunglskotin á facebook, heimasíðu og YouTube.
Sumarið heldur áfram að fela sig um helgina og gular veðurviðvaranir eru frá því í kvöld og fram yfir hádegi á morgun. Það breytir þó ekki því að á morgun er hátíðisdagur hér í Hrísey þar sem þeir Arnór Breki Guðmundsson og Stefán Pétur Bragason verða fermdir í Hríseyjarkirkju. Við óskum drengjunum og fjölskyldum þeirra til hamingju með morgundaginn og óskum þeim alls hins besta í komandi framtíð.
Það er hvítasunnuhelgi og undir eðlilegum veðurfarslegum kringumstæðum væri fjölmennt í Hrísey um helgina af gestum í dagsferðum og sumarbústöðum. Ef þið mætið köldum og hröktum ferðamanni, munið þá að eitt falleg bros og boð um góðan dag, hlýjar að innan. Vonandi hafði viðkomandi bara með sér húfu!
Hríseyjarpizzur koma glóðvolgar úr ofninum í kvöld og Verbúðin 66 er opin laugardagskvöld og svo frá 16:00 á sunnudegi og fram á kvöld. Það er gott að geta stólað á heitan mat í köldu veðri.
Spáin er gul og frekar leiðinleg um helgina, en á mánudaginn gæti byrjað að birta til og við getum aftur farið að drekka kaffibollan utandyra og fengið okkur kúluís í búðinni, vettlingalaus.
Hverfisráð græjar grill Búin að vera dugleg að hreinsa Krakkarnir í Hríseyjarskóla að leik