Föstudagsfréttir

Skólablaðið Hrís er komið út
Skólablaðið Hrís er komið út

Maí er mættur með fyrstu þrastarungana, grænkandi gras og frostlausar nætur.

Það hefur verið töluvert um gesti í eyjunni í dagsferðum og veðrið hefur hjálpað okkur að taka vel á móti þeim. Það voru ekki margir eyjaskeggjar sem tóku þátt í plokkdeginum mikla, en það er nú bara vegna þess að við höfum okkar eiginn hreinsunardag hér í Hrísey og nú fer að styttast í hann. Það er þó alltaf góður siður að taka upp rusl ef maður getur á gönguferðum sínum og setja í næstu tunnu eða gám. Sést hefur til fólks prófa frisbígolfvöllinn og er hann að koma góður undan vetri.

Það er enn smá snjór uppi á ey og á grænu gönguleiðinni, en það er þó sæmilega auðvelt að rölta hringinn með smá útúr dúrum. Bara fara varlega því fuglarnir eru að verpa og gróður að rísa úr vetrardvala. 

Hríseyjarferjan og áhöfn hennar stóðu í stórræðum síðustu helgi þegar kajakræðari féll útbyrðis nálægt Hrísey um síðustu helgi. Fór Sævar af stað í björgunarleiðangur og tóku þann sem féll útbyrðis og samferðarkonu hans um borð. Ekki nóg með það að hafa náð að bjarga fólki, heldur hélt hún áætlun líka! Viðtal við Þröst Jóhannsson, skipstjóra, má lesa hér. 

Rafíþróttir hjá Ungmennafélaginu Narfa, undir stjórn Flosa, hafa gengið mjög vel og eru krakkarnir í eyjunni ánægð með þessa góðu viðbót í tómstundirnar hér í Hrísey. Hafa krakkarnir verið dugleg að mæta og mikil sorg ríkt ef foreldrarnir draga þau í land á æfingartímum. 

Heyrst hafa ýmis hljóð úr Íþróttamiðstöðinni síðustu vikuna og glöggir hafa séð allskyns kynjaverur á hlaupum þar inni og um kring. Félagsmiðstöðinni og íþróttaskóla leikskólabarna til happs hefur verið gott veður, því íþróttahúsinu hefur verið lokað og því breytt í leikhús! Já, árshátíð Hríseyjarskóla er að bresta á. Leikskóla og grunnskólakrakkarnir hafa unnið hörðum höndum að skemmtilegum atriðum, tónlist og leiksýningum. Eftir sýninguna er kaffihlaðborð þar sem borðin svigna undan glæsilegum veitingum sem foreldrar grunnskólabarna reiða fram. Eins og venja er þá er skólablaðið Hrís gefið út í kringum árshátíðina og gengu krakkarnir í hús í gær með blaðið til sölu. Það verðu að sjálfsögðu til sölu á árshátíðinni sjálfri og fyrir þau sem ekki náðu að kaupa blaðið í gær eða á árshátíðinni, þá er Hríseyjarbúðin með eintök. 

Árshátíð Hríseyjarskóla hefst klukkan 14:00, laugardaginn 6.maí. Allar nánari upplýsingar má sjá hér á myndinni fyrir neðan.

Verbúðin 66 er með opið í kvöld en á laugardaginn er lokað vegna einkasamkvæmis. Það er því um að gera að bóka sér borð þennan fallega föstudag. Fyrir þau sem eru í stuði fyrir pizzu, þá er Hríseyjarbúðin að sjálfsögðu að taka við pöntunum fyrir Hríseyjarpizzur eftir klukkan 16:00 í dag.

Búast má við allt að 10 stiga hita og sólin mun sýna sig eitthvað um helgina. Það er því fullkomið veður fyrir ferð til Hríseyjar, fara í göngutúr, mæta á árshátíð, skella sér í sund og fá sér kúluís. 

       Hressir krakkar í Hríseyjarskóla  

                                                                   Krakkarnir í Hríseyjarskóla skemmta sér á æfingu