Föstudagsfréttir
Vikan í Hrísey var róleg og góð.
Um helgina var opið bæði á Verbúðinni og Brekku og eyjaskeggjar og gestir í Hrísey dugleg að nýta sér það.
Hrekkjavöku var fagnað hjá bæði leik og grunnskólakrökkum í Hríseyjarskóla með dansi og leikjum á kvöldvöku í Sæborg. Krakkarnir höfðu sjálf föndrað mikið af skreytingum sem voru notaðar, en fengu einnig að láni frá nokkrum heimilum í eyjunni. Við vonum að enginn hafi orðið hræddur þegar krökkunum var mætt á dimmum götum, en sjá mátti nornir, lifandi lík, drauga, dreka, beinagrindur og margar fleiri furðuverur á vappi.
Landsátakið - syndum - hófst í vikunni og Hríseyingar fara vel af stað. Árið 2021 syntu Hríseyingar 11,6 hringi í kringum landið svo nú stefnum við á heila 12! Gestir Íþróttamiðstöðvarinnar síðasta fimmtudag urðu vitni að verðandi vísindamönnum og konum að störfum en félagsmiðstöðin Draumur bauð skólakrökkunum upp á tilraunir þann daginn.
Hverfisráð Hríseyjar fundaði í vikunni og lesa má fundargerð ráðsins hér.
Hríseyjarferjan Sævar er enn í Slippnum á Akureyri en gengið hefur vel hingað til í vélaskiptum. Þröstur hjá Andey deildi myndum af því þegar vélarnar voru látnar síga niður á facebook hópnum Hrísey - myndir og fréttir. Bæjarráð Akureyrarbæjar var með málefni Hríseyjarferju á dagskrá vegna útboðs Vegagerðarinnar og má lesa bókun ráðsins í fundargerð hér.
Um helgina verður fyrsti grautardagur vetrarins! Erum við öll afskaplega ánægð með að grauturinn sé að mæta aftur eftir Covid hlé. Er hann á sama tíma og stað eins og áður, eða klukkan 12 í Hlein. Ferðamálafélagið býður alla velkomna. Svo er upplagt fyrir þá sem vilja alfarið sleppa við eldamennsku að kíkja á Verbúðina á laugardagskvöldinu.
Við minnum þau sem geta og vilja leigja út húsnæði, að hafa samband við Ásrúnu á afram@hrisey.is eða í síma 866-7786.
Spáð er úrkomulausri helgi og hita um eða rétt neðan við frostmark. Það er því enn upplagt að kíkja í frisbígolf eða taka góða göngutúra um eyjuna.