Fjölskyldu- og skeljahátíð 2012

Myndir frá hátíð - Myndirnar tóku Kristín Björk Ingólfsdóttir og Díana Björg Sveinbjörnsdóttir Hátíðin tókst í alla staði ljómandi vel og var töluverð aukning á gestum til eyjarinnar. Um helgina komu rétt um 1.500 manns en fjöldinn hefur verið í kring um 1.000 síðustu ár. Mikil ánægja er með hátíðina og höfðu nokkrir gestir orð á því að þetta væri sko alvöru fjölskylduhátíð því hér fundu allir eitthvað við sitt hæfi.Boðið var upp á óvissuferðir fyrir börn, unglinga og fullorðna á föstudeginum. Laugardagurinn var svo aðaldagurinn en þá byrjaði Skelfélagið dagskrána með að bjóða upp á rjúkandi bláskeljasúpu þá var wipe out fyrir börn í fyrsta sinn og var það gífurlega vinsælt. Söngvarakeppni barna var stjórnað af Heimi Ingimarssyni og tókst hún alveg frábærlega vel, búin var til útirennibraut í brekkunni fyrir ofan hátíðarsvæðið þar sem fólk lét sig vaða í vatni og sápu jafnt börn sem fullorðnir, litla kirkjutröppuhlaupið var haldið í annað sinn, hjólböruformúlan var á sínum stað, fjöruferð með Skralla trúð, Skákfélag Akureyrar var með útiskákmót. Hinn árlegi ratleikur sem Björn Eiríksson hefur stjórnað myndarlega síðastliðin ár var á sínum stað, hópakstur á dráttarvélum og svo kvöldvaka þar sem fram komu Heimir Ingimarsson, Lára Sóley Jóhannsdóttir og Hjalti Jónsson, Bráðavaktin, Örn Árnason og faðir hans Árni Tryggvason sem tók með honum lagið. Eftir kvöldvökuna stjórnaði Heimir brekkusöng við varðeldinn og GRM (Gylfi, Rúnar og Megas) tróðu upp eftir brekkusönginn. Kvenfélagið seldi dýrindis kaffiveitingar og Brekka grillaði hamborgara að vanda og seldi á svæðinu. Veitingahúsið Brekka, Cafe Hrísey og Júllabúð voru með opið alla helgina og var nóg að gera hjá öllum.