Eftir Hríseyjarhátíð 2022
Að þessu sinni var hátíðin frá fimmtudegi til sunnudags en það hefur ekki gerst í fjöldamörg ár. Rétt rúmlega 1.000 manns sóttu Hrisey heim á þessum dögum og segja má að íbúafjöldinn hafi áttfaldast yfir þessa dagana. Skemmtidagská var í Sæborg á fimmtudaginn fyrir unglinga og fullorðna en þar var boðið upp á pub Quiz og karókí og Rúnar eff spilaði á Brekku. Föstudagurinn rann svo upp með rigningu sem fljótlega breyttist í rjómablíðu sem var einstaklega heppilegt fyrir Garðakaffið, að þessu sinni buðu fjögur heimili upp á kaffi og kræsingar í görðum sínum, Brekka bauð í súpu og brauð og Sultusjoppan var með Rabarbarafestival og klukkustrengjasýningu bæði föstudag og laugardag. Ungmennafélagið Narfi sá svo um frábæra óvissuferð fyrir yngsta fólkið á föstudeginum og fullorðnir skemmtu sér fram á nótt í hinni feykivinsælu óvissuferð þar sem bæði, hattar, rapp og töfrar komu við sögu.
Laugardagurinn rann svo upp einn fallegasti sumardagurinn fram að þessu og hófst dagskráin á svæðinu upp úr hádeginu, þar var Ungmennafélagið með hoppukastala, tónlist á sviðinu, kaffisala kvenfélagsins, ratleikur og ýmislegt fleira. Dagskráin endaði svo á hópakstri traktora.
Kvöldvakan var á sínum stað og þar komu fram Siggi Gunnars, töframaðurinnn Jó Víðia, Rúnar eff og hinir bráðhressu siglfirsku Stúlli og Danni. Til að enda þetta allt saman var varðeldur í fjörunni og Ómar Hlyns sá um brekkusöng og björgunarsveitin styrkti hátíðina með nokkrum vel völdum flugeldum. Að lokum var svo dansað á sviðinu fram á nótt undir glymjandi tónlist frá Dj. Sigga Gunnars.
Á sunnudags kvöldinu voru svo tónleikar með hljómsveitinni Mandólín í Sæborg en þau buðu á tónleika þau spiluðu fyrir fullu húsi og allir skemmtu sér konunglega.
Frábær hátíð afstaðin og viljum við nota tækifærið og þakka öllum sem styrktu okkur en það eru fyrirtæki á svæðinu og bærinn sem sjá til þess að við getum haldið þessa hátíð. Stærstu styrktaraðilar eru Akureyrarbær, Andey ehf og Hrísey Seafood sem að þessu sinni bauð upp á barnadagskrá á sviðinu, Ungmennafélagið Narfi á hrós skilið fyrir alla sína vinnu, hoppukastala og óvissuferð barna. Þeir sem voru með Garðakaffið fá bestu þakkir fyrir sitt framlag, þetta er frábær viðbót sem er orðinn fastur liður. Sultusjoppan með sitt frábæra innlegg, takk fyrir það. Lukkufólkið tók þátt af krafti með kviss og karókí. Rekstraraðilar Brekku, Sigurður, Sigrún og öll hin komu sterk inn á hátíðina og styrktu okkur veglega með hönnun á auglýsingu, Kiddi Árna sem breytist í Playmo kall og sér um varrðeldinn, Addi Tryggva takk fyrir þitt framlag. Tinna og Klöppungar fyrir ratleikinn., kvenfélagið fyrir kaffisöluna. Við erum eflaust að gleyma einhverjum.
Einnig er vert að taka fram að þeir sem rigguðu upp grillhúsinu á síðustu stundu fá stórt og mikið TAKK þetta er alveg frábær viðbót við svæðið okkar sem er að verða mjög flott og glæsilegt að það skildi takast að koma því upp.
Eftirtalin fyrirtæki styrktu Hríseyjarhátíð 2022.
Andey, Akureyrarbær, Guðmar, Hrísiðn,HMR, Háey, Hríseyjarbúðin, Hrísey Seafood, Landnámsegg, Menja, Kraka, Rif, Syðstibær guesthouse,
Fh. Hríseyjarhátíðar nefndar
Ingimar Ragnarsson og Linda María Ásgeirsdóttir