Að lokinni Hríseyjarhátíð

Hríseyjarhátíð gekk vel og komu um 1.110 manns til eyjarinnar á föstudag og laugardag má því reikna með að um 1.300 manns hafi verið í eyjunni þegar mest var. Á föstudeginum var boðið upp á óvissuferðir fyrir börn, unglinga og fullorðna. Metaðsókn var í ferðirnar og var almenn ánægja með þær. Mikil ánægja gesta var með nýja uppákomu á hátíðinni „Kaffi í görðum”, en gestgjafar í sex görðum buðu gestum og gangandi uppá kaffi og meðlæti og mætti fjöldi manns á þennan viðburð og öruggt að þetta mun verða fastur liður í framtíðinni. 

Á laugardeginum byrjaði kaffisala kvenfélagsins og fór svo dagskráin af stað kl. 13.00. Á sviðinu stóð Ómar Hlynsson vaktina sem kynnir eftir nokkura ára hlé. Boðið var upp á hvannarplokkfisk, hvannarte frá Hrísiðn og harðfisksmakk frá Hvammsfiski. Stulli og Danni frá Siglufirði spiluðu á sviðinu yfir daginn og fór Stulli með nikkuna í vagnferðir og vakti mikla lukku. Litla kirkjutröppuhlaupið og hjólböruformúlan voru á sínum stað og Skralli trúður fór í sína árlegu fjöruferð með börnin. Sýning á flugdrekaveiði fór fram á bryggjunni en það er viðbót við afþreyingu sem er í boði í Hrísey. Ratleikurinn hjá Bjössa í Hafnarvík var vinsæll að venju og mikil ánægja með hann. Hópakstur á dráttarvélum er fastur liður á Hríseyjarhátíð og var farið kl. 18.30. Kvöldvakan hófst kl. 21.00 en þar komu fram Heimir Ingimarsson, Ingó veðurguð, Lára Sóley og Hjalti, Anton Ingvi og Gerður Ósk . Heimir Ingimarsson stjórnaði brekkusöng við varðeldinn og með því lauk formlegri dagskrá hátíðarinna. Ingó veðurguð spilaði svo í Brekku fram á nótt. Opið var frá morgni og langt fram á kvöld alla helgina í Júllabúð, Brekka var einnig opin og seldi líka grillaða hamborgara og pylsur á hátíðarsvæði, góð aðsókn var í sundlauginni, húsi Hákarla Jörundar og gallerí Perlu.

Tveir leikir voru í gangi yfir helgina, annars vegar Póstaleikurinn sem var einnig í fyrra og hins vegar Hríseyjardraumurinn. Í Póstaleiknum áttu þátttakendur að finna lausnir við myndaþrautum en í Hríseyjardraumnum áttu þátttakendur að taka myndir af sér leysa ákveðin verkefni, til dæmis við það að sofa á óvenjulegum stað og vaða í fjöru. Af myndunum að dæma skemmtu þeir sér konunglega sem tóku þátt í leikjunum.

Þökkum öllum styrktaraðilum kærlega fyrir stuðninginn á ykkar væri þetta ekki hægt. Helstu styrktaraðilar voru, Eyfar ehf, Norðlenska, Stefna hugbúnaðarhús og Eyfang ehf. Einnig viljum við þakka þeim sem aðstoðuðu okkur við undibúning og framkvæmd á hátíðinni.

Framkvæmdarstjórn Hríseyjarhátíðar 2014.