Hríseyjarhátíð 2018
Hríseyjarhátíðin fer fram í júlí ár hvert og stendur yfir heila helgi. Boðið er upp á fjölskylduvæna dagskrá sem felst m.a. í óvissuferðum um eyjuna, fjöruferð, kvöldvöku, varðeld og söng.
Aðaldagskráin er svo á laugardeginum þá er í boði dagskrá frá hádegi og fram á kvöld, sem felst í fjöruferð með Skralla trúð, dráttavélaferðum, boðið verður upp á aðgang að leiktækjum, tónlist, ratleik og fleira. Að venju endar hátíðin á kvöldvöku á sviðinu, varðeldi og brekkusöng. Hátíðin er fyrst og fremst fjölskylduhátíð þar sem allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi.
Í Hrísey er öll almenn þjónusta til staðar s.s verslun, veitingahús, sundlaug, tjaldsvæði og gisting. Til Hríseyjar gengur ferjan Sævar og er boðið upp á allt að níu ferðir á dag. Siglingin tekur aðeins 15 mínútur frá Árskógssandi, sem er um 35 kílómetra frá Akureyri.
Fyrsta hátíðin var haldin árið 1997 og hefur hún verið árlegur viðburður síðan. Það er Ferðamálafélag Hríseyjar sem stendur að hátíðinni.